Greindust fyrst smitlausir en svo smitaðir

Lögregluþjónn að störfum.
Lögregluþjónn að störfum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Alls eru þrír lögregluþjónar hjá lögreglunni á Suðurlandi smitaðir af COVID-19 eftir að hafa handtekið og yfirheyrt Rúmena fyrir búðarþjófnað í síðustu viku. Lögreglumennirnir tveir sem greindust í gær höfðu greinst smitlausir í fyrri skimum þremur dögum áður.

Tveir þriggja smitaðra lögregluþjónanna eru konur en einn karl. Hann er rannsóknarlögreglumaður og yfirheyrði hina grunuðu. Til viðbótar við þetta fólk eru níu lögreglumenn í sóttkví, jafnvel þó að þeir hafi greinst smitlausir að sinni.

Sveinn Kristján Rúnarsson yfirlögregluþjónn á Suðurlandi við mbl.is: „Þetta er bara svekkjandi fyrir alla. Það er ekki hægt að segja annað.“ Hinir smituðu eru að sögn Sveins hingað til blessunarlega einkennalausir.

 

Sveinn segir að allir lögregluþjónar hjá embættinu hafi verið skimaðir á mánudeginum og þá kom í ljós fyrsta smitið. Á fimmtudeginum var farið í aðra umferð af skimun og komu þá tveir enn í ljós: „Það þarf alltaf að vera vakandi,“ segir Sveinn. 

Lögregluþjónarnir sem þá greindust höfðu verið smitlausir á mánudeginum. 

Eins og gefur að skilja er flókin staða uppi á vinnustaðnum vegna sóttkvíar og einangrunar starfsmanna, en Sveinn segir góða samheldni innan hópsins. 

Rannsókn á þjófnaði þremenninganna á Selfossi er langt komin en virði þýfisins er að sögn Sveins lítilsháttar. Föt, ilmvötn og þar fram eftir götum.

Sveinn Kristján Rúnarsson yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Suðurlandi.
Sveinn Kristján Rúnarsson yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Suðurlandi. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson
mbl.is

Bloggað um fréttina