Sigurður vill áfram leiða flokkinn

Sigurður Ingi Jóhannsson formaður Framsóknarflokksins.
Sigurður Ingi Jóhannsson formaður Framsóknarflokksins. Ljósmynd/Aðsend

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra og formaður Framsóknarflokks, hyggst áfram gefa kost á sér sem formaður flokksins. Hann tilkynnti um þetta á miðstjórnarfundi flokksins í gær.

„Næsta vetur byrjar upptakturinn að kosningum sem verða einar þær mikilvægustu í sögu þjóðarinnar því að sú ríkisstjórn sem þá fer með stjórn landsins þarf að takast á við eftirmál þeirrar kreppu sem við berjumst nú við. Þá verður mikilvægt að Framsókn sé sterk og nýti reynslu sína og styrk við stjórn landsins með öfgaleysi sínu og samvinnuhugsjónum. Ég ætla mér að standa í stafni í þeirri baráttu og leiða flokkinn til aukins styrks og áhrifa,“ sagði Sigurður í ræðunni, en hann tók við formennsku í flokknum snemma árs 2017.

Sigurður fór að öðru leyti um víðan völl í ræðu sinni á fundinum, sem haldinn var í gegnum fjarfundabúnað vegna kórónuveirufaraldurs. Í því sambandi gerði Sigurður það einmitt að sérstöku umtalsefni að handan við hornið væri glænýtt Framsóknarapp og um leið uppfærð heimasíða flokksins.

Rafrænn miðstjórnarfundur.
Rafrænn miðstjórnarfundur. Ljósmynd/Aðsend

Ræða Sigurðar eins og hún leggur sig:

Kæru félagar.

Ég vil hefja mál mitt á því að minnast gengins félaga, Alfreðs Þorsteinssonar. Þeir sem kynnast félagsstörfum vita að oft er starfið borið uppi af eldhugum. Alfreð var einn þeirra, framsýnn hugsjónamaður, sem samfélag hans, borgin hans, naut ávaxtanna af. Við skulum rísa úr sætum og minnast Alfreðs. 

Frá því við vorum saman á miðstjórnarfundi á Akureyri síðastliðið haust hefur samfélagið okkar og raunar heimurinn allur gengið í gegnum tímabil sem við hefðum líklega aldrei getað ímyndað okkur. Við opnuðum blöðin og sáum fyrirsagnir sem voru eins og úr vísindaskáldskap. Áhrif kórónuveirunnar eru ekki aðeins alvarleg þegar kemur að heilsu og velferð fólks heldur hefur hún sett efnahagslíf heimsins á hliðina tímabundið.

Í reynd hefur faraldurinn breytt nánast öllu í samskiptum manna. Hann er ástæða þess að við höldum þennan netfund - en komum ekki saman og gleðjumst yfir samfundum. Vonandi verður ekki langt í að við getum það með öruggum hætti - þá verður gaman. Landsstjórn hefur þegar ákveðið að haustfundurinn okkar verði stærri og lengri en venja er til.

Ríkisstjórn Íslands ákvað strax við upphaf faraldursins að leggja megináherslu á að koma böndum á útbreiðslu veirunnar. Í þeirri vinnu var farið eftir ráðleggingum okkar færasta fólks á sviði sóttvarna og almannavarna. Þríeykið okkar hefur unnið stórvirki með vinnu sinni og framgöngu. Öll framganga þeirra gerði það að verkum að víðtæk sátt varð um aðgerðirnar. Fólk treysti þessum sérfræðingum okkar og allir lögðu sín lóð á vogarskálarnar. Þessi samstaða er lykillinn að þeim árangri sem hefur náðst á Íslandi.

Árangurinn á heilbrigðissviðinu er lofsverður og vil ég nota tækifærið og þakka heilbrigðisstarfsfólki, lögreglu, almannavörnum og Íslenskri erfðagreiningu fyrir ómetanlegt framlag í baráttunni við heimsfaraldurinn. Og reyndar er ástæða að þakka öllum landsmönnum samstöðuna og árangurinn - samvinna í verki.

Viðbrögð ríkja heims við faraldrinum hafa verið ólík og ófyrirséð. Mörg ríki ákváðu að loka landamærum sínum einhliða (án samráðs við nágranna sína) og í sumum löndum var fólki meinað að yfirgefa húsnæði sitt nema í neyðartilvikum. Við getum verið þakklát fyrir að þurfa ekki að grípa til harðari aðgerða en raun bar vitni.

Þegar ýtt var á pásu og heimurinn stöðvaðist fór allt úr skorðum. Afleiðingarnar eru stórkostlegar og munum við eiga við þær næstu mánuði og ár. Þótt veiran hafi laðað fram margt gott í fari okkar mannanna þá er ljóst að afleiðingarnar eru mestar fyrir þá sem eru veikastir fyrir, fjárhagslega og félagslega. Allar aðgerðir stjórnvalda hér á landi miðuðu að því að milda höggið.

Við í Framsókn höfðum áður en faraldurinn skall á bent á að íslenska hagkerfið væri að kólna. Við sáum merkin í minni fjárfestingu og meira atvinnuleysi en við höfðum séð í nokkurn tíma. Við höfðum beitt okkur fyrir því að ríkisstjórnin myndi fara í sérstakt fjárfestingarátak til að veita atvinnulífinu og hagkerfinu innspýtingu svo við myndum ekki ganga inn í tímabil stöðnunar. Þegar faraldurinn skall á bjuggum við meðal annars að þeirri vinnu.

Við sjáum öll hversu gríðarlegt áfall veiran er fyrir ferðaþjónustu í heiminum. Hér á Íslandi hafði ferðaþjónusta verið byggð hratt upp eftir hrun og eldgos og skapað mikil verðmæti fyrir Íslendinga. Ferðaþjónustan er ekki aðeins mikilvæg atvinnugrein fyrir Ísland sem heild heldur hefur hún haft gríðarlega jákvæð áhrif á byggðina hringinn í kringum landið og styrkt byggðir með samspili sínu við hefðbundnari atvinnugreinar eins og landbúnað og sjávarútveg. Nú standa hótel víða tóm eða hálftóm og fyrirtæki hálflömuð og starfsfólkið með takmarkaða eða enga vinnu. Það er alvarleg staða sem ríkisstjórnin gerði sér strax grein fyrir að þyrfti að mæta.

Aðgerðir ríkisstjórnarinnar hafa haft mjög jákvæð áhrif á baráttuna fyrir lífsgæðum á Íslandi. Hlutastarfaleiðin er líklega stærsta aðgerðin sem hafði það að takmarki að fólk missti síður vinnuna og leiddi Ásmundur Einar þá mikilvægu vinnu. Aðgerðir sem hjálpa fyrirtækjum og einstaklingum að komast í gegnum tímabundið ástand hafa skilað árangri. Ríkisstjórn og Alþingi gengu fumlaust til verka með lærdóminn úr hruninu í fersku minni.

Aðstæður okkar nú eru ólíkar eftir ábyrga stjórn landsins síðustu árin, skuldastaða heimilanna mun betri en í hruninu og fyrirtækjanna einnig, bankarnir sterkari og heilbrigðari, staða ríkissjóðs sterk og það sem kannski er mikilvægast: sterkir flokkar í ríkisstjórn, hver með öflugt bakland og traust sín á milli. Við komumst vart nærri þjóðstjórn en með þessa flokka saman í stjórn sem endurspegla litróf íslenskra stjórnmála. Þannig höfum við náð fram mikilvægasta efnahagsmarkmiðinu - lægri vöxtum og sílækkandi - sem skila heimilum og fyrirtækjum mun meiri ávinningi en nokkur önnur aðgerð.

Samstarfið í ríkisstjórn hefur gengið vel þótt auðvitað reyni á það við þessar fordæmalausu aðstæður. Og kannski er Framsókn aldrei betri og mikilvægari fyrir þjóðina en við þessar aðstæður þegar leysa þarf flókin verkefni og byggja upp, skapa meiri verðmæti, skapa atvinnu fyrir fólkið í landinu.

Það þarf ekki að dvelja lengi við þær aðgerðir sem ríkisstjórnin hefur komið með, þær eru flestum hér vel kunnar. Og það er ekki eins og Framsókn hafi bara staðið í ströngu varðandi afleiðingar veirunnar. Við höfum á þessum þingvetri sem brátt lýkur náð að koma mikilvægum málum sem við höfum lengi barist fyrir til framkvæmda.

Lilja Dögg hefur sem mennta- og menningarmálaráðherra unnið þrekvirki með nýjum Menntasjóði sem er bylting og mun hafa gríðarlega jákvæð áhrif á tækifæri allra til náms. 30 prósent niðurfærsla á höfuðstól við námslok, beinn stuðningur við foreldra, lágir vextir og lægri endurgreiðslur eru allt byltingarkenndar breytingar til hins betra. Áherslur hennar á menntun hafa m.a skilað sér í stóraukna aðsókn í nám leik- og grunnskólakennara - en þar stefndi í algjört óefni í upphafi kjörtímabilsins.

Ásmundur Einar hefur sem félags- og barnamálaráðherra staðið að lengingu fæðingarorlofsins og lagt sérstaka áherslu á barnvænt samfélag. Nú liggur fyrir þinginu frumvarp Ásmundar Einars um hlutdeildarlán sem er líkt og Menntasjóður byltingarkennd nýjung sem auðveldar ungu fólki og tekjulágum að eignast sína eigin íbúð en samkvæmt rannsóknum þá vilja meira en 90 prósent þeirra sem eru á leigumarkaði frekar eiga en leigja.

Í mínu ráðuneyti höfum við unnið af hörku við að færa samgöngukerfi landsins mörg ár eða jafnvel áratugi fram í tímann með auknum framkvæmdum um allt land. Óumdeilt er að ástand innviða hefur áhrif á samkeppnishæfni landsins og þegar vegir, hafnir og flugvellir eru í slæmu ástandi þá getum við ekki vænst þess að vera í sambærilegri stöðu og þau lönd sem við viljum bera okkur við. Ég hef því haft það leiðarljós að með fjárfestingu í innviðum þá væri jafnframt verið að fjárfesta í lífsgæðum og hagvesti framtíðarinnar. Og það er einmitt það sem við þurfum á að halda í dag. Og besta fjárfestingin er í traustum og öruggum innviðum sem styðja við verðmæti framtíðarinnar og hagvöxt...

Ég leyfi mér að fullyrða að aldrei hefur verið sett jafn mikið fjármagn á svo skömmum tíma eins og eru nú í samgönguáætlun. Stórt stökk er tekið fram á við við flýtingu verkefna frá fyrri áætlun þar sem sérstök áhersla er lögð á umferðaröryggi og á tengingu byggða. Áherslan er á að virkja krafta atvinnulífsins til þess að tryggja að þjóðhagslega hagkvæmar framkvæmdir rísi fyrr en seinna með hjálp Samvinnuleiðar.

Kostir þeirra ágætu leiðar er að fá utan aðkomandi fjármagn til framkvæmda og hvetja þannig til nýsköpunar í samgöngum. Oftar en ekki eru þessi verkefni hagfelldari, taka styttri tíma og eru ódýrari. En það er alveg skýrt að það verður enginn neyddur til þess að borga gjald sem ekki vill.Valið stendur á milli þess að fara áfram gömlu leiðina, en ávinningur verður í því að fara nýju. 

Önnur stór mál eru einnig í farvatninu og langar mig hér að nefna undirbúning að Sundabraut en unnið er að því að endurmeta hönnun og legu hennar. 

Í vetur gerði ég sem samgönguráðherra samkomulag við borgina sem felur í sér að flugvöllurinn verður í Vatnsmýrinni þangað til annar kostur, jafngóður eða betri, verður tilbúinn. Það þýðir einfaldlega það að Reykjavíkurflugvöllur verður ekki lagður af fyrr en eftir einhverja áratugi. Einnig er unnið að því að byggja nýja flugstöð fyrir innanlandsflugið. Enda ætti öllum að vera ljóst að flugvöllurinn er mikilvægur hluti af skyldum höfuðborgarinnar við þá sem búa úti á landi og þurfa að sækja þjónustu ríkisins sem er á höfuðborgarsvæðinu en hvergi annars staðar.

Mörg samkomulög hafa verið gerð á undanförnum árum en ekkert leyst málið fyrr en nú.Og talandi um flugstöðvar þá er jafnframt unnið að því að stækka flugstöðina á Akureyri, þannig að það er mikil framsókn í innanlandsfluginu.

Það er síðan annað mál að nauðsynlegt er að störf ríkisins verða að dreifast betur um landið. Það er ekki aðeins gott fyrir uppbyggingu samfélaganna hringinn í kringum landið heldur er það nauðsynlegt svo sjónarhorn landsbyggðanna fái meira vægi í ákvörðunum ríkisins.

Skoska leiðin sem við lofuðum fyrir síðustu kosningar og felur í sér niðurgreiðslu á flugferðum fyrir íbúa landsbyggðarinnar verður að veruleika í haust. Það er gríðarlega mikilvægt skref og táknrænt fyrir þær sterku rætur sem við eigum öll vítt og breitt um landið.

Það er gömul saga og ný að landið er oft tvískipt í umræðunni. Höfuðborg og landsbyggð eiga ekki og eru ekki andstæðir pólar þótt ákveðin öfl virðist telja sér hag í því að ýta undir slíkt tal.

Ég vona og treysti því þetta íslenska ferðasumar sem er í vændum þar sem Íslendingar eru staðráðnir í því að ferðast um landið sitt muni auka skilning landsmanna á ólíkum aðstæðum. Ég tel reyndar að óveðrið sem geisaði á landinu í desember og umræður eftir það hafi aukið skilning þeirra sem búa á suðvesturhorninu á aðstæðum þeirra sem búa í landsbyggðunum.

Ofviðrið leiddi í ljós brotalamir í kerfum okkar og þá sérstaklega þegar kemur að fjarskiptum og raforkuöryggi. Framsókn hefur alla tíð lagt mikla áherslu á að tækifæri séu jöfn hvar sem fólk kýs að búa á okkar stóra landi. Þar er grundvallaratriði að samgöngu-, fjarskipta- og raforkukerfi séu öflug um allt land. Við brugðumst hratt við og höfum þegar fjármagnað og sett af stað framkvæmdir til að koma í veg fyrir að sambærilegt veður geti orsakað svona truflun og tjón. Ríkisstjórnin kynnti í febrúar fjárfestingarátak sem er stórsókn í jöfnun lífsgæða með því að byggja hraðar og betur upp þessi grunnkerfi sem við reiðum okkur öll á og eiga að vera jafnörugg hvar á landinu sem fólk býr.

Eitt af því sem heimsfaraldurinn gerði var að hann vakti frekari athygli á mikilvægi matvælaöryggis. Þessi umræða kom okkur í Framsókn ekkert á óvart. Við höfum lengi barist fyrir metnaðarfullri matvælaframleiðslu hér á landi og ekki er nema rúmt ár síðan við héldum fjölmennan fund þar sem fjallað var um hætturnar sem skapast af sýklalyfjaónæmum bakteríum í matvælum sem flutt eru til landsins. Það eru mikil lífsgæði fólgin í því að geta keypt í matinn án þess að óttast að matvælin séu sýkt, hvort heldur er af salmonellu eða sýklalyfjaónæmum bakteríum. 

Sú ákvörðun ríkisstjórnarinnar að stefna að algjöru banni við sölu og dreifingu á matvælum með sýklalyfjaónæmum bakteríum er metnaðarfull og öllum til hagsbóta. Það hefur heldur aldrei verið mikilvægar og aldrei verið frjórri jarðvegur fyrir því að við framleiðum hér á landi sem allra mest af þeirri matvöru sem við neytum. Það er ekki aðeins heilbrigðismál heldur umhverfis- og efnahagsmál að hér sé öflugur landbúnaður, sjávarútvegur og vinnsla á matvælum.

Það er augljóst að allt tal um að hagsmunir heildsala og neytenda fari ætíð saman og að hagsmunir neytenda og bænda séu andstæðir er tómt rugl. Þessu gera sífellt fleiri sér grein fyrir og er áríðandi að baráttufólk fyrir matvælaöryggi standi saman. Við eigum að ganga lengra í þessum efnum og Framsókn verður að vera forystuaflið í þeirri vegferð. - hvort sem við tölum um , innlenda framleiðslu, jarðamálin, sjálfbæra nýtingu auðlinda

Við upphaf heimsfaraldursins var óvissan alls ráðandi. Það hefur dregið úr henni eftir því sem dagarnir og vikurnar líða en það er samt erfitt að spá fyrir um hvernig næstu vikur og mánuðir verða. Það skref sem var stigið með varfærinni opnun landsins með skimun við landamæri er mikilvægt því okkur er öllum ljóst að það er ekki einungis veiran sjálf sem getur ógnað heilsu okkar til lengri og skemmri tíma heldur geta efnahagslegar afleiðingar hennar haft alvarleg áhrif á lýðsheilsu þeirra sem hér búa. Við sáum þess strax merki þegar samkomubann var sett á að heimilisofbeldi jókst og óreglulegt skólastarf getur haft mikil áhrif á þau börn og ungmenni sem höllum fæti standa náms- og félagslega.

Atvinnuleysi hefur alltaf verið eitur í beinum okkar í Framsókn því við þekkjum mikilvægi þess að hafa trygga atvinnu. Í því felst frelsi og sjálfstæði sem eru hvort tveggja mikilvægir þættir í lífsgæðum og lífshamingju fólks. Atvinnuleysi getur haft alvarlegar afleiðingar fyrir einstaklinga og samfélagið allt. Því munum við berjast af hörku fyrir aðgerðum sem skapa fjölbreytt störf fyrir fólk á öllum aldri, um allt land. Við höfum áður lofað þúsundum starfa - og staðið við það - Það eigum við og getum gert aftur.

Í grundvallarstefnuskrá okkar stendur að við séum frjálslyndur flokkur og störfum við á alþjóðavettvangi innan samtaka frjálslyndra flokka. Í frjálslyndinu felst að við treystum fólki fyrir lífi sínu. Við höfum sem flokkur til dæmis stutt réttindabaráttu samkynhneigðra fyrir jöfnum réttindum varðandi hjúskap og ættleiðingar. Það var ekki óumdeilt á sínum tíma en í dag efast enginn um þau sjálfsögðu mannréttindi sem fólust í þeim skrefum sem stigin voru í kringum aldamótin síðustu. Ég tel að við þurfum að horfa inn á við þegar kemur að frjálslyndistaug flokksins.

Við styðjum frelsi einstaklingsins en því frelsi fylgir auðvitað ábyrgð. Við viljum lifa í frjálsu samfélagi þar sem manngildi er ofar auðgildi. Það er oft freistandi fyrir stjórnmálamenn að ætla endalaust að hafa vit fyrir borgurunum. Sumt kemur okkur einfaldlega ekki við. Á síðasta þingi voru samþykkt ný lög um fæðingarorlof sem tryggja 12 mánaða fæðingarorlof fyrir foreldra. Þegar kemur að skiptingu orlofsins milli foreldra eru uppi skiptar skoðanir. Ég held við ættum að skoða þann möguleika að mánuðirnir tólf fylgi einfaldlega barninu og að við treystum foreldrunum eða foreldrinu til þess að skipta með sér mánuðunum eftir hagsmunum barnsins en njörvum það ekki niður í lögum og reglugerðum. Það er síðan augljóst að hækka verður greiðslur í takti við launaþróun í landinu. 

Í frjálslyndi felst virðing fyrir ólíkum skoðunum og ólíkum lífsviðhorfum. Það hefur verið kjarninn í Framsókn frá upphafi og stundum verið af andstæðingum okkar málað upp sem galli. Við höfum starfað í ríkisstjórnum og sveitarstjórnum ýmist með flokkum hægra megin við okkur eða vinstra og eins og núna í miðjunni milli andstæðra póla. Í því að vera frjálslyndur samvinnuflokkur á miðjum ási stjórnmálanna felst ekkert afstöðuleysi.

Í því felst öfgaleysi sem er mikilvægt  okkur og í því felst líka það viðhorf að það sé samvinnan sem skili samfélaginu áfram veginn en ekki sundrungin. Við getum verið stolt af hlutverki okkar og sögu. Samvinnan og samtalið er mikilvægasti þátturinn í því að bæta samfélög. Við þekkjum það úr samtímasögunni að það er nauðsynlegt að hlusta eftir afstöðu og skoðunum annarra og bera virðingu fyrir þeim þótt maður sé ekki sammála. Það er gagnslaust að níða skóinn af öðrum til að upphefja sjálfan sig. Í stjórnmálum höfum við skyldu til að halda okkar sjónarmiðum og stefnu á lofti en öðruvísi vinnum við ekki aðra til fylgis við okkur.

Eins og upptalningin á verkum okkar ber með sér erum við að gera góða hluti, standa við kosningastefnu okkar og jafnvel gott betur. Þessi upptalning er þó hvergi nærri tæmandi. Þrátt fyrir það er yfirlýstur stuðningur samkv skoðannakönnunum ekki í nokkru samræmi við það. Margir segja,jafnvel flokksmenn, að við séum ekki nægilega sýnileg; að við segjum ekki nægjanlega vel frá því sem við séum að vinna að og framkvæma.  Við því vil ég segja - við getum og eigum að gera betur.

Nú styttist í að ný heimasíða Framsóknar fari í loftið og næstu dögum tökum við Framsóknar-appið í gagnið. En við öll - ekki síst kjörnir fulltrúar verðum að taka stöðuna til okkar, taka meira pláss, vera sýnilegri i umræðu og koma verkum okkar betur á framfæri. Við getum verið stolt af verkum okkar og gjörðum - en við verðum líka að tala um það út á við - við öll - því eins og við vitum þá skilar samvinna árangri.

Kæru félagar.

Næsta ár verða liðin fjögur ár frá síðustu þingkosningum. Þá náðum við einstökum árangri og nánast tvöfölduðum fylgi okkar á síðustu fjórum vikunum fyrir kosningar. Haustið 2017 var ekki auðveldur tími fyrir okkur og flokkinn okkar. Þá sáum við á eftir mörgum félögum yfir í annan flokk. Við vorum í vörn í þeim kosningum en náðum samt þeim merka árangri að mynda sterka og breiða ríkisstjórn sem unnið hefur samhent að stjórn landsins.

Ég hef fundið flokkinn sem mér þykir svo vænt um styrkjast með hverjum degi frá síðustu kosningum en betur má ef duga skal.

Næsta vetur byrjar upptakturinn að kosningum sem verða einar þær mikilvægustu í sögu þjóðarinnar því að sú ríkisstjórn sem þá fer með stjórn landsins þarf að takast á við eftirmál þeirrar kreppu sem við berjumst nú við. Þá verður mikilvægt að Framsókn sé sterk og nýti reynslu sína og styrk við stjórn landsins með öfgaleysi sínu og samvinnuhugsjónum. Ég ætla mér að standa í stafni í þeirri baráttu og leiða flokkinn til aukins styrks og áhrifa.

Ég geri mér, eins og aðrir sem njóta þeirrar upphefðar að starfa á þingi og í ríkisstjórn fyrir flokkinn, grein fyrir því að þingsætin eru eftirsóknarverð enda hlýtur það að vera draumur og metnaður allra þeirra sem starfa í stjórnmálum að nýta krafta sína í þágu lands og þjóðar á Alþingi Íslendinga.

Það á að vera samkeppni um sæti í sveitarstjórnum og á þingi og öllum forystustörfum, það er styrkleikamerki lýðræðislegs flokks. Fyrir næstu kosningar þurfum við að styrkja okkur og stækka og fá til liðs við okkur öflugt fólk sem finnur samhljóm með baráttumálum okkar og stefnu.

Sá árangur sem við höfum nú þegar náð með starfi okkar í ríkisstjórn er slíkur að loforðin sem við gáfum fyrir síðustu kosningar hafa flest verið efnd. Nú tekur við mikilvægur tími þar sem við setjum stefnuna fyrir framtíðina, höldum áfram veginn, ótrauð, og fáum til liðs við okkur öflugt fólk sem finnur samhljóm með gildum Framsóknar.

Starf okkar næstu mánuðina, starf okkar allra í Framsókn, mun ákvarða hver verða baráttumál okkar í næstu kosningum. Þá er ég ekki að tala um kollsteypu í stefnu heldur þurfum við að hlusta á þarfir samfélagsins, þarfir fjölskyldunnar sérstaklega: barna, eldra fólks og ungs fólks. Við viljum ekki staðna sem stjórnmálaafl heldur vera áfram sterkur aflvaki hugmynda og hreyfiafl til góðs fyrir samfélagið okkar.

 Nú snúum við vörn í sókn, Framsókn fyrir landið allt. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert