Þreyttur á neikvæðni í garð miðbæjarins

Ólafur Örn segir umræðuna um miðbæinn skemma fyrir miðbænum.
Ólafur Örn segir umræðuna um miðbæinn skemma fyrir miðbænum. mbl.is/Golli

„Ég fékk nóg af því hvað það er neikvæð umræða um miðborgina. Hér hef ég bæði lifað og starfað í áratugi og ætla að fullyrða að miðborgin hefur aldrei verið jafn lífleg og núna,“ segir Ólafur Örn Ólafsson, vínsérfræðingur og einn stofnenda Vínstúkunnar Tíu Sopa á Laugaveginum. Hann segir að mikið mannlíf sé í miðbænum, jafnvel þótt alla ferðamenn kunni að vanta.

Ólafur lýsti yfir vanþóknun sinni á neikvæðu viðhorfi gagnvart miðborginni á Twitter, sérstaklega neikvæðu tali fyrirtækjaeigenda á Laugaveginum.

Engar áhyggjur yfir aðgerðum á Laugavegi

Hann telur táknræn mótmæli kaupmanna við Laugaveg, þar sem hengdir voru upp svartir ruslapokar í búðargluggum, vera ranga nálgun til að hvetja fólk að eiga í viðskiptum við fyrirtæki á Laugaveginum.

„Ef þú ætlar að markaðssetja fyrirtækið þitt, og segir öllum að það sé erfitt að komast þangað, það sé alltaf kalt og alltaf rigning og ómögulegt að vera þar, endar það á því að fólk vill ekki koma,“ segir Ólafur í samtali við mbl.is.

„Ég vil ganga svo langt að segja að þetta skemmi fyrir miðbænum, að vera með svona neikvætt hjal.“

Ólafur segist engar áhyggjur hafa yfir aðgerðum á Laugavegi, en hann geti sett sig í spor þeirra sem kjósi frekar að hafa bílagötu heldur en göngugötu. „Við erum bara á öndverðum meiði með þetta. En þessi svakalega neikvæðni, ég á erfitt með að gúddera hana,“ segir Ólafur.

Vínstúkan Tíu Sopar, ásamt Public House og Sumac, mun standa fyrir veislu á laugardaginn. Stillt verður upp langborði á miðjum Laugavegi og er stefnan að hleypa ennþá meira lífi í bæinn.

mbl.is