102 útskrifuðust frá Bifröst

Í útskriftarræðu sinni talaði rektor sérstaklega um þær undarlegu aðstæður …
Í útskriftarræðu sinni talaði rektor sérstaklega um þær undarlegu aðstæður sem sköpuðust í háskólasamfélaginu vegna COVID-19 faraldursins í vetur og þá einstöku stöðu sem Háskólinn á Bifröst var í. Ljósmynd/Aðsend

102 nemendur útskrifuðust frá Háskólanum á Bifröst í dag. Nemendahópurinn samanstóð af nemendum úr viðskiptadeild, félagsvísinda- og lagadeild og Háskólagátt.

Þetta var síðasta útskrift Vilhjálms Egilssonar sem rektor við skólann en hann hefur verið rektor skólans síðan árið 2013. Hátíðin markar því ákveðin tímamót fyrir skólann, en Margrét Jónsdóttir Njarðvík tekur við sem rektor í sumar.

Í útskriftarræðu sinni talaði Vilhjálmur sérstaklega um þær undarlegu aðstæður sem sköpuðust í háskólasamfélaginu vegna COVID-19 faraldursins í vetur og þá einstöku stöðu sem Háskólinn á Bifröst var í. „Háskólinn á Bifröst er vissulega í fararbroddi í fjarnámi núna meðal íslenskra háskóla.  Við byggjum fjarnámið upp á eigin forsendum en erum ekki að reyna að flytja út skólastofuna.  Við reynum að haga fjarnáminu þannig að nemandinn geti lært óháð stað og óháð tíma.  Þetta er okkar forskot.  Við fengum sannarlega staðfestingu á forystu okkar í fjarnáminu í COVID-19 ástandinu í mars og apríl.  Skólastarfið hjá okkur gekk hnökralítið fyrir sig.  Ekki þurfti að gefa afslátt af neinum kröfum.  Aðrir skólar þurftu að reyna að nálgast það sem við erum að gera.“

Útskriftarverðlaun í grunnnámi hlutu Gísla Gamm  viðskiptadeild og Friðrik Þórsson, félagsvísinda- og lagadeild. Í meistaranámi hlutu útskriftarverðlaun, þau Eva Hrund Einarsdóttur viðskiptadeild og Finnur Bjarnason, félagsvísinda- og lagadeild. Útskriftarverðlaun í Háskólagátt hlaut Haukur Þór Sigurbjörnsson Að auki fengu tveir nemendur felld niður skólagjöld á haustönn vegna framúrskarandi námsárangurs, þau Bjarni Heiðar Halldórsson, viðskiptadeild og Líney Lilja Þrastardóttir félagsvísinda- og lagadeild.  

Ræðumaður fyrir hönd grunnnema viðskiptadeildar var Thelma Dögg Harðardóttir og fyrir hönd grunnnema félagsvísinda- og lagadeildar var Kristófer Kristjánsson. Fyrir hönd meistaranema í viðskiptadeild flutti Monika Katarzyna Waleszcynska ávarp og Arnhildur Ásdís Kolbeinsdóttir fyrir hönd meistaranema í félagsvísinda- og lagadeild, þá flutti Sigrún María Grétarsdóttir ræðu fyrir hönd háskólagáttarnema.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert