Stærsti skjálfti á svæðinu frá 2012

16 jarðskjálftar, 3 eða stærri, hafa mælst á Tjörnesbrotabelti síðasta …
16 jarðskjálftar, 3 eða stærri, hafa mælst á Tjörnesbrotabelti síðasta sólarhringinn. Kort/Veðurstofa Íslands

Jarðskjálfti af stærð 5,3 sem varð um 18 kílómetra norðvestur af Gjögurtá er sá stærsti á svæðinu frá árinu 2012. 

Skjálftahrina hefur staðið yfir á Tjörnesbrotabeltinu, í sjó norður af Siglufirði, síðan um hádegi í gær. 26 skjálftar yfir 3 að stærð hafa orðið síðan klukkan sjö í gærkvöldi. 

Skjálftinn sem varð nú um klukkan fimm mínútur yfir þrjú er töluvert stærri. Hann fannst vel á Siglufirði, Akureyri, Húsavík, Dalvík, í Hrísey og víðar. 

„Hann var það stór að það er alls ekki óeðlilegt að hann finnst víða. Það hefur ekki verið svo stór skjálfti þarna síðan 2012. Við höfum fengið tilkynningar frá Húsavík, Skagafirði og víðar,“ segir Sigríður Magnea Óskarsdóttir, náttúruvárfræðingur Veðurstofu Íslands. 

„Þetta er vel þekkt jarðskjálftasvæði og það hafa orðið stærri skjálftar þarna áður fyrr. Þetta eru brotaskjálftar, jarðskorpuhreyfingar, sem valda þessu og eru ekki óeðlilegar.“

Kom allt í einu 

Samkvæmt Sigríður hafa eftirskjálftarnir verið margir og nokkuð öflugir. 

„Það voru nokkuð margir eftirskjálftar og nokkuð stórir sem við eigum eftir að fara betur yfir, þetta kom svo allt í einu. En þeir hafa örugglega verið á annan tug eftirskjálftarnir. Það má alveg búast við áframhaldandi virkni á svæðinu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert