„Það nötraði alveg ótrúlega mikið og lengi“

Grjóthrun úr Gjögurtánni eftir jarðskjálftann í kvöld.
Grjóthrun úr Gjögurtánni eftir jarðskjálftann í kvöld. Ljósmynd/Sigurgeir Haraldsson

Talsvert grjóthrun varð úr Gjögurtánni eftir jarðskjálfta sem varð um 15,3 km norðvestur af Gjögurtá um klukkan 19:26 í kvöld. 

Fyrstu mælingar benda til þess að skjálftinn hafi verið um 5,6 af stærð. Hann fannst víða, á Akranesi, Seyðisfirði, Ísafirði og jafnvel á höfuðborgarsvæðinu. 

Sigurgeir Haraldsson er staddur í sumarbústað vestan við Ólafsfjörð og fann vel fyrri skjálftanum og eftirskjálftum. 

„Það hristist mikið og eitthvað hrundi nú hérna í bústaðnum og það opnuðust skúffur og svona. Það nötraði alveg ótrúlega mikið og lengi, það var alveg magnað að finna þetta,“ segir Sigurgeir.

„Svo byrjaði grjóthrunið úr Gjögurtánni hérna út frá og eins við Ólafsfjarðarmúlann, hérna rétt norðan við göngin. En það var ekkert grjóthrun hérna okkar megin, þetta var aðallega úr Gjögurtánni sem við sjáum héðan,“ segir Sigurgeir. 

Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra varar við hættu á grjóthruni í fjöllum næst upptökum skjálftans. Fólk sem hyggur á útivist á svæðinu ætti að hafa sérstakan vara á sér og líka þau sem ferðast um vegi undir hlíðum.

Fréttin hefur verið uppfærð. 

mbl.is