Ég sagði bara já strax

Heiða Birgisdóttir er ein ellefu kvenna sem gengu yfir Vatnajökul …
Heiða Birgisdóttir er ein ellefu kvenna sem gengu yfir Vatnajökul í júní. mbl.is/Ásdís

Aðalheiður Birgisdóttir, fatahönnuður og snjóbrettakona, er varla komin niður á jörðina eftir vel heppnaða göngu yfir Vatnajökul með hópi kvenna sem kalla sig Snjódrífurnar. Ferðin var bæði ógleymanleg og lærdómsrík en tilgangurinn var að safna fé til stuðnings krabbameinssjúkum og hvetja fólk til útivistar.

Með blik í auga talar Heiða um lífið og um vinkonur sínar Snjódrífurnar sem lögðu mikið á sig til þess að ná settu markmiði.

Aldrei prófað gönguskíði

Í heilt ár hefur hópur ellefu kvenna sem kalla sig Snjódrífurnar æft og skipulagt ferð yfir Vatnajökul sem farin var nú í júní og kláruð í byrjun vikunnar.
„Sirrý, G. Sirrý Ágústsdóttir, var upphafsmaður ferðarinnar en hún er með ólæknandi krabbamein. Læknar sögðu við hana fyrir fimm árum að hún ætti jafnvel bara eftir eitt til tvö ár. Nú fimm árum seinna var hún ákveðin í að gera eitthvað stórkostlegt til að fagna lífinu. Og hana langaði að gera það með vinkonum,“ segir Heiða sem segist hafa kynnst Sirrý í gegnum Vilborgu Örnu.
Við tengjumst allar Sirrý á einn eða annan hátt og hafa fjórar greinst með einhvers konar krabbamein. Ég sagði bara já strax, þótt ég vissi í raun ekkert í byrjun hvað við værum að fara að gera,“ segir hún og hlær.
„Ég er frekar mikil já manneskja og er alltaf til í ævintýri. Tilgangur ferðarinnar var að fagna lífinu með Sirrý og í leiðinni að safna áheitum til styrktar Krafti og Lífi.“

Þetta er full vinna

Snjódrífurnar lögðu af stað í leiðangurinn þann 6. júní.
„Það komu tveir „monster“ trukkar og sóttu okkur við Jökulheima og keyrðu okkur upp á jökulinn og svo var lagt af stað,“ segir Heiða og útskýrir að hópurinn hafi gengið um átta til tíu tíma á dag.

Snjódrífurnar drógu á eftir sér um 50 kílóa púlku. Þær …
Snjódrífurnar drógu á eftir sér um 50 kílóa púlku. Þær gengu um átta til tíu tíma á dag og oft yfir erfitt landslag. Ljósmynd/Heiða Birgisdóttir

„Fyrsta daginn var ágætisveður en á öðrum degi fengum við rosa bleytu á okkur. Þegar við vorum að tjalda var rok og slydda og allt blautt. Það gerir hlutina miklu erfiðari. Við þurftum svo að bíða af okkur veðrið í hálfan sólarhring. Ég var aldrei neitt stressuð í ferðinni en það komu stundir, eins og þennan dag, sem maður þurfti aðeins að harka af sér,“ segir hún en segist jafnframt alltaf hafa litið á þetta sem verkefni sem hún ætlaði að klára og það með gleðina og jákvæðnina í fyrirrúmi.

„Það þýðir ekkert að pirra sig á neinu. Maður vaknar á morgnana, hitar vatn, útbýr nesti, borðar morgunmat og allir þurfa að vinna hratt. Það er enginn að drekka kaffi og halla sér aftur í rólegheitunum. Svo er pakkað á púlkuna og lagt af stað. Þetta er full vinna,“ segir hún og útskýrir að vaknað var milli á fimm og sex á morgnana og lagt í hann.
„Þetta er prógramm allan sólarhringinn.“

Litlu hlutirnir mest krefjandi

Allir dagar eftir þennan erfiða blauta dag voru góðir og veðrið frábært nánast alla daga eftir það. 

„Útsýnið var dásamlegt og við vorum ótrúlega heppnar með veður. Leiðangurstjórarnir, Vilborg Arna og Brynhildur Ólafsdóttir, voru frábærar. Við treystum þeim hundrað prósent og hópurinn var mjög samheldinn. Það var enginn stærri en verkefnið. Þetta er magnaður hópur,“ segir Heiða og er greinilegt að á milli kvennanna hafi myndast strengur sem mun aldrei slitna.

Heiða var vel útbúin á jöklinum og þurfti að verjast …
Heiða var vel útbúin á jöklinum og þurfti að verjast sólinni. Ljósmynd/Heiða Birgisdóttir

„Við þurftum bara alltaf að halda áfram, sama hvað. Skórnir okkar voru blautir allan tímann. Á hverjum morgni þurftum við að fara í rennblauta skóna og jafnvel með hælsæri,“ segir hún.

„Ein lenti í því að fá afar slæmt hælsæri sem var í raun eins og annars og þriðja stigs bruni. Ég skil varla hvernig hún komst í gegnum þetta en við hjálpuðumst allar að ef einhver átti erfiðan dag. Ég fékk sjálf líka mjög slæmt hælsæri á leiðinni og átti erfitt með að klára gönguna þann daginn,“ segir hún.

„Litlu hlutirnir voru í raun mest krefjandi; ekki gangan sjálf. Mesta kvíðaefni dagsins var að fara í blautu skóna sína.“

Versta við ferðina var að fara í blauta skó á …
Versta við ferðina var að fara í blauta skó á hverjum morgni, jafnvel með sár á fótum. Ljósmynd/Heiða Birgisdóttir

Það var grátið

Snjódrífurnar komu niður af jöklinum á mánudaginn var og voru að vonum glaðar með afrekið.
„Það var mjög tilfinningaþrungin stund þegar við komum niður að jökulröndinni.“

Hvernig leið ykkur? Var grátið?

„Já, það var grátið,“ segir Heiða og segir að í raun hafi síðasti sólarhringur ferðarinnar verið hlaðinn ólýsanlegum tilfinningum.

Flesta daga skein sólin sem gerði lífið léttara fyrir Snjódrífurnar. …
Flesta daga skein sólin sem gerði lífið léttara fyrir Snjódrífurnar. Útsýnið var oft stórkostlegt. Ljósmynd/Heiða Birgisdóttir

„Síðasta daginn gengum við upp að Goðahnjúk og útsýnið þaðan var geggjað. Við höfðum þá verið að brasa upp erfiða brekku og komum svo á toppinn þar sem við horfðum yfir jökla og fjöll. Þetta var töfrandi stund og allt svo fallegt. Við áttum svo eftir að renna okkur niður langa brekku sem er erfitt með púlkuna. Það var endalaus fegurð í kringum okkur og svo stórkostlegt að vera þarna með þessum konum. Ég fór nokkrum sinnum að gráta þennan dag. Það var bland af spennufalli, þakklæti, náttúrufegurð og það að hafa klárað þetta,“ segir hún og tekur undir með blaðamanni að það sé afrek að klára svona leiðangur.
„Það er afrek. Fyrir nokkrum árum hefði mig aldrei grunað að ég færi í svona leiðangur. Ég er stolt af því að vera hluti af þessu verkefni. Þetta er persónulegur sigur fyrir okkur allar en við vorum fyrst og fremst að fara með Sirrý. Sýn hennar á lífið, kaldhæðni húmorinn hennar, orkan og æðruleysið kom okkur yfir þennan jökul,“ segir hún.

„Það þýðir ekkert að pirra sig á neinu. Maður vaknar …
„Það þýðir ekkert að pirra sig á neinu. Maður vaknar á morgnana, hitar vatn, útbýr nesti, borðar morgunmat og allir þurfa að vinna hratt. Það er enginn að drekka kaffi og halla sér aftur í rólegheitunum. Svo er pakkað á púlkuna og lagt af stað. Þetta er full vinna,“ segir Heiða. Ljósmynd/Heiða Birgisdóttir

Værir þú til í einhvern daginn að fara aftur í svona ferð?

„Já, ég var eiginlega tilbúin í morgun að fara aftur til baka.“

Ítarlegt viðtal við Heiðu er í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins um helgina. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert