Vara við afleiddum hættum skjálftanna

Grjóthrun úr Gjögurtánni eftir jarðskjálftann í gær.
Grjóthrun úr Gjögurtánni eftir jarðskjálftann í gær. Ljósmynd/Sigurgeir Haraldsson

Hópstjóri náttúruvárvöktunar Veðurstofu Íslands varar við afleiddum hættum skjálftavirkni á Tjörnesbrotabeltinu, norðvestur af Gjögurtá. Ómögulegt er að segja til um hve lengi skjálftahrinan gæti staðið yfir. 

Frá því að skjálftahrinan hófst á föstu­dag um 20 kíló­metra norðaust­ur af Sigluf­irði hafa tæplega 2.000 skjálft­ar mælst, þar af 72 stærri en 3. Tveir stærstu urðu klukk­an 15:05 og 19:26 í gær og voru 5,4 og 5,6 að stærð sam­kvæmt nýj­ustu mæl­ing­um Veður­stofu Íslands. 

Kristín Jónsdóttir, hópstjóri náttúruvárvöktunarinnar, segir mikilvægt að fólk sé á varðbergi gagnvart afleiddum hættum verði annar stór skjálfti. 

„Það er ekki bara jarðskjálftinn sjálfur sem hætta skapast af heldur er líka hætta af grjóthruni. Það er líka heilmikill snjór á svæðinu, það er þarna skíðafólk og fólk á vélsleðum. Þó svo að það séu kannski ekki nein óstöðug snjóalög eru hengjur og það getur orðið hengjuhrun í svona skjálfta og ef það er nægilega mikill hristingur getur vel verið að snjórinn fari á hreyfingu. Svo eru náttúrulega vegir þarna og það gæti brotnað upp úr sjávarhömrum. Við viljum vara fólk við þessum afleiddu hættum á meðan við erum í þessu ástandi,“ segir Kristín. 

Kristín segir ómögulegt að segja til um hve lengi hrinan gæti staðið yfir. „Svona hrinur standa stundum yfir í einhverja daga og stundum eru þær skemmri. Það er betra að búa sig undir það versta.“

Kominn tími á stóran skjálfta 

Kristín segir ekki útilokað að stór skjálfti allt að 7 af stærð gæti orðið á Tjörnesbrotabeltinu. 

„Það er orðið mjög langt síðan það varð stór skjálfti á Tjörnesbrotabeltinu. Síðasti stóri skjálftinn var í rauninni Kópaskersskjálftinn árið 1976. Það er óvenjulega langt tímabil á milli stórra atburða á Tjörnesbrotabeltinu og það mætti alveg segja að það sé kominn tími á stóran skjálfta. Hvort hann komi núna í þessari hrinu eða seinna er engin leið að segja til um,“ segir Kristín.  

„Við erum að fylgjast með því hvort að virknin sé að færast eitthvað frá þessum stað. Ef hún myndi færast eftir misgenginu í átt að Húsavík kæmi örugglega frá okkur viðvörun því þá myndum við telja að líkur á stærri skjálfta hefðu aukist enn frekar.“

Verði stór skjálfti segir Kristín mikilvægt að fólk sé á varðbergi gagnvart afleiddum hættum. 

„Þá þurfum við virkilega að fara skoða hvernig húsin eru byggð og fleira. Skjálfti af stærð 7 gæti haft mjög slæmar afleiðingar sér í lagi fyrir byggðina næst skjálftanum. Við sjáum það í heimildum að það hafa myndast flóðbylgjur eftir stóra skjálfta. Það er eitthvað sem fólk þarf að vita ef það finnur mjög sterkan skjálfta að koma sér af strandsvæði. Það getur skapast flóðbylgjuhætta í einhverja klukkutíma eftir stóran skjálfta.“

Kristín segir að virknin sé hrinukennd og enn frekar mikil. 

„Það er erfitt að spá í framhaldið. Þegar maður að heldur að dregið hafi úr virkninni kemur nýr skjálfti". Það hafa mælst ríflega 600 skjálftar frá miðnætti, stærsti 4,3 af stærð. Það eru að mælast skjálftar núna á svona tveggja mínútna fresti en það eru aðallega litlir skjálftar. En þetta breytist mjög hratt.“

Fyrir átta árum varð síðasta sambærilega skjálftahrinan á Húsavíkur-Flateyjarmisgenginu. Hún var þó aðeins fjær landi en sú sem stendur yfir núna. 

„Hrinan 2012 var heldur vestar þannig við erum komin aðeins lengra inn í Húsavíkur-Flateyjar misgengið með þessa virkni. Við höfum ekki séð virknina hreyfast neitt mikið, hún er frekar staðbundin og heldur nær landi og hefur því meiri áhrif en virknin 2012. Núna hafa orðið tveir skjálftar stærri en fimm en fyrir 8 árum voru þeir 6. Það hefur líka fylgt töluvert grjóthrun þessari virkni.“ 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert