Yfir 20 stig í höfuðborginni

Veðrið lék við leikhópinn Lottu og gesti í Elliðaárdal í …
Veðrið lék við leikhópinn Lottu og gesti í Elliðaárdal í dag þegar hiti fór yfir 20 stig. mbl.is/Sigurður Ragnarsson

Hitinn í höfuðborginni fór yfir 20 stig klukkan 14 í dag og er það í fyrsta sinn sem það hendir þetta sumarið. „Það er mjög hlýtt loft yfir landinu, hitinn var kominn yfir 18 gráður áður en sólin fór að skína. Sólin er aukaleikari í þessu mætti segja,“ segir Birgir Örn Höskuldsson, veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands, í samtali við mbl.is. 

Hlýtt er á öllu landinu hefur hiti mest farið upp í 22,4 stig í Húsafelli og er víða í kringum 20 gráður, til að mynda í Borgarfirði og á Akureyri. „Þetta er óvenjuhlýtt en það er ekki óvenjulegt að svona dagar komi yfir sumarið,“ segir Birgir.  

Það dregur heldur úr hlýindunum á morgun og þá má búast við „venjulegum sumarhita“ að sögn Birgis. „Á morgun verður smá væta, sérstaklega fyrri part dags, það verður ekki svona hlýtt heldur þessi venjulegi sumarhiti, í kringum 12 gráðurnar.“

Veðurvefur mbl.is

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert