117 skjálftar stærri en þrír

Síðustu tvo sólarhringa hafa 117 jarðskjálftar stærri en þrír mælst …
Síðustu tvo sólarhringa hafa 117 jarðskjálftar stærri en þrír mælst á Tjörnesbrotabeltinu. Kort/Veðurstofan

Jarðskjálftavirkni á Tjörnesbrotabeltinu er enn í fullum gangi og áfram eru líkur á því að fleiri stærri skjálftar muni verða. Frá miðnætti hafa sex jarðskjálftar stærri en 3 mælst, sá stærsti skömmu eftir miðnætti og var hann 3,3. Síðustu tvo sólarhringa hafa 117 jarðskjálftar stærri en þrír mælst á svæðinu. 

Frá því hrinan hófst um hádegi á föstudag hafa um þrjú þúsund skjálftar mælst. Stærsti skjálftinn, sem varð klukkan 19:07 í gærkvöld, reyndist 5,8 að stærð samkvæmt yfirförnum gögnum frá Veðurstofunni, en ekki 5,7 eins og gögn sýndu í gær. 

Aðrir skjálftar yfir 5 að stærð voru 5,6 og 5,4 að stærð og voru staðsettir rúma 20 km NA af Siglufirði. Stærstu skjálftarnir hafa fundist á öllu norðanverðu landinu og suður á höfuðborgarsvæðinu. 

Óvissustigi almannavarna hefur verið lýst yfir á svæðinu sökum skjálftanna og hvetur Veðurstofan, líkt og almannavarnir, fólk sem býr á þekktum jarðskjálftasvæðum til þess að gera viðeigandi ráðstafanir vegna jarðskjálfta.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert