Efnislega töluvert eftir af umræðunni

Bergþór Ólason segir að svör samgöngumálaráðherra komi honum ekki á …
Bergþór Ólason segir að svör samgöngumálaráðherra komi honum ekki á óvart. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Bergþór Ólason, varaformaður þingflokks Miðflokksins, segir að svör Sigurðar Inga Jóhannssonar samgöngumálaráðherra, að vinna við undirbúning samgönguframkvæmda muni frestast ef ekki náist að samþykkja samgönguáætlun og frumvörp tengd henni fyrir þinglok, komi honum ekki á óvart.

„Það liggur fyrir í þegar samþykktri áætlun sem er í gildi og fjáraukalagafrumvarpi sem þegar er búið að samþykkja að það er fjárstreymi til þessara verkefna og tryggir að þau tefjast ekki þótt þetta mál klárist ekki núna,“ segir Bergþór í samtali við mbl.is.

Bergþór segir svör samgöngumálaráðherra óskýr og að hann hafi ekki enn þá fengið á hreint hvaða verkefni myndu raunverulega skaðast ef ekki næðist að samþykkja samgönguáætlun fyrir þinglok. Hann segist telja það raunhæft að hægt verði að klára umræðuna um samgönguáætlun áður en þingið klárast, en að nokkuð eigi eftir að ræða.

„Ég er sjálfur bara rétt að komast inn í efnið, þannig að efnislega er töluvert eftir af umræðunni,“ segir Bergþór.

Umræða um málþóf „pólitískt leikrit“

Þingmenn Miðflokksins hafa verið áberandi í umræðum um samgönguáætlun, sem hefur staðið yfir í þinginu síðan fyrir helgi. Hafa þeir verið sakaðir um málþóf, og þingflokksformenn stjórnarflokka sagt þá halda þinginu í gíslingu. Bergþór gefur þó lítið fyrir þá umræðu.

„Það hefur ekki farið mikill tími fyrirframskipulagðra verka þingsins í umræðu um málið. Umræðan hefur átt sér stað utan hefðbundins þingtíma. Þannig að þessi umræða um að við séum að halda þinginu í gíslingu og að þetta sé orðin mjög mikil umræða sem tefur framgang annarra mála er pólitískt leikrit,“ segir Bergþór.

mbl.is