Gæti minnkað losun CO2 um þriðjung

Ný íslensk tækni í álframleiðslu sem gefur frá sér súrefni í stað koltvísýrings gefur vonir um að hægt sé að eyða koltvísýringsmengun úr ferlinu við framleiðslu á áli. Fyrirtækið Arctus Metals framleiddi á dögunum ál með þessum hætti í samstarfi við Nýsköpunarmiðstöð Íslands en helsta nýungin er að í stað rafskauta úr kolefni eru notuð skaut úr málmblöndum og keramik. 

Þetta gæti þýtt að koltvísýringsmengun frá íslenskum álverum myndi alveg hætta. „Íslensk álver gefa frá sér um 1,6 milljónir tonna af koltvísýringi á ári. Ef öll álverin okkar tækju upp þessa nýju tækni myndum við minnka losun koltvísýrings á Íslandi um 30% og uppfylla þannig alþjóðlegar skuldbindingar okkar og gott betur en það. Álver á stærð við Ísal í
Straumsvík mundi þannig með nýrri aðferð Arctus framleiða súrefni á borð við 500 ferkílómetra skóg,“ segir Jón Hjaltalín Magnússon, verkfræðingur og forstjóri Arctus Metals.

Búið sé að undirrita samstarfssamning við þýska fyrirtækið Trimet Aluminium, einn stærsta álframleiðanda heims, sem mun halda þróuninni áfram en næsta verkefni er framleiðsla í stærri kerum. Í myndskeiðinu er rætt við Jón Hjaltalín um verkefnið en í dag var það kynnt fyrir Guðna Th. Jóhannessyni, forseta Íslands, í Nýsköpunarmiðstöð Íslands. 

mbl.is

Bloggað um fréttina