Myndi seinka öllum framkvæmdum

Sigurður Ingi Jóhannsson.
Sigurður Ingi Jóhannsson. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Náist ekki að samþykkja samgönguáætlun og frumvörp henni tengd fyrir þinglok mun öll vinna við undirbúning samgönguframkvæmda, sem til stendur að flýta, seinka sem því nemur. Þetta segir Sigurður Ingi Jóhannsson samgönguráðherra í samtali við mbl.is.

„Ef frumvörp eru ekki samþykkt hefur Vegagerðin ekki heimild til að ganga til samninga, öll útboð frestast, undirbúningur sömuleiðis og það frestar öllu verkinu,“ segir Sigurður. Í umræðum á Alþingi í dag sagði hann að 8.700 störf myndu skapast vegna framkvæmdanna á öllum stigum og munaði um minna.

Umræður hafa staðið í þinginu um samgönguáætlun frá því fyrir helgi og hafa þingmenn Miðflokksins haft sig mest í frammi. Þingmenn bæði meiri- og minnihluta hafa sakað Miðflokksmenn um málþóf, og þingflokksformenn stjórnarflokka sagt þá halda þinginu í gíslingu.

Ný brú yfir Ölfusá er meðal þeirra framkvæmda sem á …
Ný brú yfir Ölfusá er meðal þeirra framkvæmda sem á að flýta. mbl.is/Sigurður Bogi

„Þetta virðist ekkert þokast áfram, en ég er bjartsýnismaður og vona það besta,“ segir Sigurður Ingi. Hann segir almennt samkomulag þingmanna annarra flokka um mikilvægi samgönguáætlunar en furðar sig á tilburðum Miðflokksmanna.

Starfsáætlun Alþingis var tekin úr sambandi í morgun og óvíst hvort takist að ljúka þingi á fimmtudag, líkt og til stóð. Sigurður Ingi viðurkennir að erfiðara verði að ljúka þinginu á tilsettum tíma eftir því sem umræður dragast á langinn. Enn sé þó raunhæft að klára málin innan tímaramma ef menn taka sig til.

mbl.is