Segir eftirlýsinguna litast af hroka og útlendingahatri

Vinnuveitandinn segir eftirlýsingu lögreglu litast af útlendingahatri og hroka.
Vinnuveitandinn segir eftirlýsingu lögreglu litast af útlendingahatri og hroka. mbl.is/Árni Sæberg

Vinnuveitandi þriggja Rúmena sem stjórnvöld lýstu eftir vegna gruns um brot á sóttvarnalögum segir lögreglu hafa gert grundvallarmistök við eftirlýsinguna sem hann segir litaða af útlendingahatri og hroka. 

Fram kom í frétt mbl.is í dag að lögreglan hafi aldrei lýst eftir 11 Rúmenum, sem hafa verið sektaðir fyrir brot á sóttkví, í tengslum við þjófnað eða skipulagða brotastarfsemi. Rætt var við Pioaru Alexandru lonut í Morgunblaðinu í dag, en hann segist hafa verið ranglega bendlaður við glæpagengi í rúmenskum fjölmiðlum í kjölfar myndbirtingar lögreglu. 

Lýst var eftir þremur rúmenskum karlmönnum á þriðjudaginn í síðustu viku vegna gruns um brot á sóttkví. Vinnuveitandi mannanna, sem kýs að koma ekki fram undir nafni, segir vinnubrögð lögreglu litast af útlendingahatri og hroka. 

„Ég myndi segja að það væru grundvallarmistök að lýsa eftir mönnum án myndbirtingar og segja að þeir hafi komið til landsins mánudaginn 8. júní þegar þeir koma hingað 5. júní og ætlast svo til að þeir gefi sig fram,“ segir vinnuveitandinn. 

„Þeim er svo hótað myndbirtingu ef þeir gefa sig ekki fram og ef þú flokkar þetta ekki sem mistök veit ég ekki hvað á að kalla þetta. Það hefði verið hægt að komast hjá þessari myndbirtingu alveg frá upphafi og í rauninni hefði bara átt að hafa samband við mig sem atvinnurekenda í gegnum þjóðskrá því það lágu þar fyrir umsóknir sem ég skrifaði undir.“ 

Lokaðir inni í þrjá sólarhringa

Þá segir vinnuveitandinn að mennirnir hafi verið lokaðir inni í þrjá sólahringa án dómsúrskurðar. 

„Ég þurfti bara að standa í þessu sjálfur að koma þeim út. Ég náði því í rauninni bara með því að hóta því að kæra vegna frelsissviptingar. Ég frétti bara að þeir hefðu verið læstir inni á hótelherbergi í þrjá sólarhringa, án úrskurðar, hvernig getur það ekki flokkast sem frelsissvipting?“

„Mér finnst málið bara litast af útlendingahatri og rasisma. Það voru einhverjir tveir teknir og þá voru bara allir Rúmenar sem komu til landsins eftirlýstir. Svo komu fimm Tékkar daginn eftir sem var ekkert verið að spá í. Það hefði verið fróðlegt að sjá hvernig það hefði farið ef það hefðu líka verið Rúmenar,“ segir vinnuveitandinn. 

Hann segir að mennirnir hafi fengið neikvæða niðurstöðu úr sýnatöku á þriðjudagsmorgun, en þá síðar um daginn var lýst eftir þeim. 

„Ég pantaði persónulega sýnatöku fyrir þá, fór eftir öllum leiðbeiningum. Svo eru þeir bara lokaðir inni í þrjá sólarhringa eftir það, þrátt fyrir að hafa lokið sóttkví. Það var bara búið að taka ákvörðun um það að þeir hefðu brotið af sér. Þessi myndbirting var bara þetta mál í hnotskurn. Það sáu allir þessar myndir og það er verið að segja fólki að passa sig á þeim. Þetta litast bara af hroka og útlendingahatri, eftirlýsingin sjálf. Það var bara búið að dæma þá svolítið áður. En það voru auðvitað grundvallarmistök að það var lýst vitlaust eftir þeim. Þeir hefðu bara gefið sig strax fram ef að það hefði verið sagt að þeir hefðu komið á föstudeginum, en það er leitað að þeim í fimm daga á röngum forsendum,“ segir vinnuveitandinn. 

mbl.is