Vilja ekki Þórarin Tyrfingsson

Meirihluti starfsmanna meðferðarsviðs SÁÁ leggst gegn því að Þórarinn Tyrfingsson, …
Meirihluti starfsmanna meðferðarsviðs SÁÁ leggst gegn því að Þórarinn Tyrfingsson, fyrrverandi forstjóri sjúkrahússins Vogs, gefi kost á sér í embætti formanns SÁÁ. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Meirihluti starfsmanna meðferðarsviðs SÁÁ leggst gegn því að Þórarinn Tyrfingsson, fyrrverandi forstjóri sjúkrahússins Vogs, gefi kost á sér í embætti formanns SÁÁ. Stjórnarfundur SÁÁ fer fram í næstu viku þar sem ný 48 manna stjórn og formaður samtakanna verða kjörin. 

57 starfsmenn af rúmlega 80 sem starfa á meðferðarsviði SÁÁ skrifa undir yfirlýsinguna þar sem segir einfaldlega: „Við viljum ekki Þórarinn [sic] Tyrfingsson aftur!“  Nokkrir starfsmenn vildu ekki láta nafn síns getið af ótta við viðbrögð Þórarins Tyrfingssonar, „sem sýnir kannski í einföldustu myndinni þá ógnarstjórn sem var við lýði þegar hann var við stjórn“, að því er segir í yfirlýsingunni.

Deil­ur hafa ríkt inn­an SÁÁ á milli starfs­manna sjúkra­húss­ins Vogs og for­ystu stjórn­ar SÁÁ. Starfsmennirnir sem undirrita yfirlýsinguna styðja fram­boð Ein­ars Her­manns­son­ar, sem hef­ur setið í stjórn SÁÁ í 4 ár. Það gerir Valgerður Rúnarsdóttir, for­stjóri Sjúkra­húss­ins Vogs og fram­kvæmda­stjóri lækn­inga, sömuleiðis, en hún tilkynnti uppsögn sína í apríl en dró hana síðar til baka.

Kristbjörg Halla Magnúsdóttir, áfengis- og vímuefnaráðgjafi hjá SÁÁ, segir í samtali við mbl.is að yfirlýsingin hafi verið send út til að undirstrika vilja starfsmanna sem telja Þórarin eiga raunhæfan möguleika á að ná kjöri. Kristbjörg hefur starfað hjá SÁÁ í 16 ár og segist hafa upplifað tímana tvenna. 

„Við erum fólkið sem vinnur á gólfinu og erum í þessari vinnu því við berum virkilega hag skjólstæðinga fyrir brjósti og höfum ástríðu fyrir vinnunni. Mörg okkar hafa séð tímana tvenna og við viljum ekki fara aftur í tímann,“ segir Kristbjörg í samtali við mbl.is.  

„Okkur þarf ekki að bjarga“

Í yfirlýsingunni segir að vandi SÁÁ snúist ekki um peninga heldur „yfirgengilegt ofbeldi í samskiptum, vanvirðingu, undirróður og valdabaráttu manna sem geta ekki sleppt tökunum á gömlum tímum.“ 

Starfsmennirnir segja meðferðarvinnuna aldrei hafa gengið betur en undir stjórn Valgerðar og að miklar jákvæðar breytingar hafa orðið innan starfsmannahópsins vegna annarra stjórnunarhátta en áður. 

Starfsmennirnir segja að Þórarinn meti það sem svo að enginn nema hann sjálfur geti bjargað SÁÁ og kveðið niður þann óróleika sem hann telur að eigi sér stað innan samtakanna. 

„Þórarinn hefur unnið ötullega að því að reyna skapa úlfúð og missætti milli starfsstétta og hans handbragð var auðþekkjanlegt á öllum gjörðum framkvæmdarstjórnar sem leiddu til vantraustsyfirlýsingar starfsfólks meðferðarsviðs á formann SÁÁ og framkvæmdarstjórn í apríl sl. Okkur þarf ekki að bjarga, starfsandinn er almennt góður og það eitt að fyrrverandi formaður haldi öðru fram er dæmigert fyrir hans stjórnunarstíl, viðhorf og sjónarmið,“ segir í yfirlýsingunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert