Segir Sjálfstæðisflokkinn í hlutverki sykurpabba

Þorsteinn Sæmundsson kallaði Sjálfstæðisflokkinn sykurpabba borgarstjórnarmeirihlutans.
Þorsteinn Sæmundsson kallaði Sjálfstæðisflokkinn sykurpabba borgarstjórnarmeirihlutans. mbl.is/Hari

Þorsteinn Sæmundsson, þingmaður Miðflokksins, kallaði Sjálfstæðisflokkinn sykurpabba borgarstjórnarmeirihlutans í Reykjavík vegna áforma um uppbyggingu borgarlínu. Þetta kom fram í ræðu hans þegar rætt var frumvarp til að heimila stofnun opinbers hlutafélags um uppbyggingu samgönguinnviða á höfuðborgarsvæðinu.

Þorsteinn rifjaði fyrst upp þegar borgarlínan var kynnt fyrir nokkrum árum og sagði að Dagur B. Eggertsson borgarstjóri hefði nú í tvígang gefið einhver dýrustu kosningaloforð Íslandssögunnar með loforðum um uppbyggingu borgarlínunnar.

Sagði hann því næst að kostnaðarsamt væri fyrir borgina að fjármagna þetta og leita þyrfti annað eftir fjármagni. „Þegar blanki borgarstjórinn sér að hann hefur ekki séns á því að standa við þessi kosningaloforð, hvað gerir hann þá herra forseti? Hann hringir í vin. Og hver er vinur borgarstjórans í þessu tilfelli? Hver er sá sem ætlar að taka að sér að fjármagna þessi viltu kosningaloforð borgarstjórans í Reykjavík?“ spurði Þorsteinn og svaraði sjálfur um hæl. „Jú það er Sjálfstæðisflokkurinn sem ætlar að fjármagna þessi kosningaloforð.“

Sneri hann sér því næst að þingforseta, sem í þetta skiptið var Brynjar Níelson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, og sagði að til væri amerískt orðatiltæki sem hann ætlaði sér ekki að nota, heldur snara því yfir á íslensku sem hér ætti við. „Sjálfstæðisflokkurinn, með fjármálaráðherra í broddi fylkingar, ætlar að verða sykurpabbi borgarstjórnarmeirihlutans í þessu máli.“

Sagði Þorsteinn að stefnt væri að því að setja 50 milljarða frá ríkinu í framkvæmdir tengdar þessari uppbyggingu, „til að uppfylla kosningaloforð borgarstjórans í Reykjavík.“

Þorsteinn hélt svo áfram með ræðu sína, sem samtals var um 20 mínútur, en hann og samflokksmenn hans í Miðflokknum ræddu þetta mál nokkuð fram til rúmlega þrjú þegar málinu var frestað og fundi slitið, en í kvöld hefjast svo eldhúsdagsumræður.

Borgarlínan hafði áður verið Miðflokksmönnum hugleikin, en önnur umræða um samgönguáætlun næstu fimm og fimmtán ára lauk í hádeginu eftir 46 klukkustunda umræður síðustu sex þingdaga. Tók umræðan um stofnun opinbera hlutafélagsins við að henni lokinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert