Snýst um hver ræður för

Þórarinn Tyrfingsson, fyrrverandi yfirlæknir á Vogi.
Þórarinn Tyrfingsson, fyrrverandi yfirlæknir á Vogi. Ljósmynd/SÁÁ

Þórarinn Tyrfingsson, fyrrverandi yfirlæknir og formaður SÁÁ, kippir sér ekki upp við bréf 57 starfsmanna meðferðarsviðs SÁÁ þess efnis að þeir vilji ekki fá Þórarin aftur í stöðu formanns. Þórarinn var til viðtals í morgunútvarpi Rásar 2 í morgun. Hann sagðist sannfærður um að meirihluti starfsmanna stæði ekki að baki yfirlýsingunni.

Tölvuvert hefur verið ritað um deilur innan SÁÁ undanfarið en þær komu upp á yfirborðið er Valgerður Rúnarsdóttir, yfirlæknir á Vogi, sagði starfi sínu lausu vegna óánægju með ákvörðun framkvæmdastjórnar félagsins um að segja upp þremur af sex sálfræðingum Vogs til þess að hagræða í rekstri. Hún dró síðar uppsögnina til baka og í kjölfarið dró framkvæmdastjórn allar uppsagnir til baka. Hún hefur sagt að skýra þurfi betur hlutverk stjórnar og faglega ráðinna starfsmanna, á borð við hana.

Í viðtalinu sagði Þórarinn að deilur innan SÁÁ snerust um það hvort starfsmenn eða stjórn SÁÁ og félagið sjálft skyldu ráða för þegar fjármálavandræði koma upp. „Þegar upp kemur rekstrarvandi er spurning hvernig á að takast á við það og hver ræður för. Það er framkvæmdastjórnin og 48 manna stjórn sem er andlit þessa stóra félags,“ sagði Þórarinn. Hann segir að starfsmenn Vogs hafi gert uppreisn gegn stjórn félagsins og vilji ekki fara að lögum félagsins og starfslýsingu.

Þórarinn lét af störfum sem yfirlæknir á Vogi árið 2017 en í viðtalinu sagði hann að deilur, líkt og þær sem nú eru, hefði ekki verið þá. Síðan þá hefur hann ekki komið að starfi SÁÁ ef frá er talin skýrsla sem hann vann um heilbrigðisþjónustu SÁÁ. „Í henni er ég að fara yfir það í tölum og máli hversu frábær þessi meðferð er og hversu frábærir starfsmenn eru í meðferðarstarfinu. Það segir alla sögu um hvaða álit ég hef á meðferðinni,“ sagði Þórarinn.

mbl.is