Villandi hræðsluáróður og rangfærslur

Valgerður Rúnarsdóttir, yfirlæknir á Vogi.
Valgerður Rúnarsdóttir, yfirlæknir á Vogi. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Engar hugmyndir eru uppi um að loka Vogi yfir sumartímann eða breyta opnunartíma á meðferðarheimilinu Vík úr sjö í fimm daga í viku. Þetta segir Valgerður Rúnarsdóttir, yfirlæknir á Vogi. Sjúkratryggingar Íslands hafa sömuleiðis séð ástæðu til að árétta þetta, en í tilkynningu frá stofnuninni segir að engar lokanir séu fyrirhugaðar á legudeildum stofnunarinnar sem starfræktar eru samkvæmt samkomulagi við Sjúkratryggingar.

Tilefni yfirlýsinganna eru ummæli Erlu Bjargar Sig­urðardótt­ur Olgu Kristrúnar Ing­ólfs­dótt­ur, meðlima í framkvæmdastjórn SÁÁ, en í viðtali við mbl.is í síðustu viku sögðu þær að umræddar hagræðingartillögur, sem hefðu komið frá Valgerði yfirlækni, hefðu ekki hugnast framkvæmdastjórninni.

Valgerður segir hins vegar að aldrei hafi staðið til að ráðast í þessar breytingar. „Þessi ummæli eru villandi og hræðsluáróður sem eru bara til þess fallin að láta líta út fyrir að ég sé ekki með hag sjúklinga í forgrunni,“ segir Valgerður. Slæmt sé að senda slík skilaboð út enda geti þau valdið óróa meðal sjúklinga.

125 milljóna niðurskurður nauðsynlegur

Valgerður segir rekstur SÁÁ hafa verið mjög stöðugan síðustu ár, samtökin hafi ávallt staðið í skilum þrátt fyrir að hafa byggt stórt hús á Vík. Eftir að kórónuveirufaraldurinn hófst, varð þó ljóst að tekjufall yrði hjá SÁÁ vegna samdráttar í söfunarfé. Taldi framkvæmdastjórn því að skera yrði niður í rekstri Vogs um 125 milljónir króna á árinu.

Valgerður segir að ýmsum hugmyndum hafi verið kastað fram og sumarlokun ein þeirra sem var nefnd, enda ætlunin að skoða allar mögulegar hugmyndir. Hins vegar hafi sú leið aldrei staðið til, og á endanum verið ákveðið að draga frekar úr fjölda innritana á Vog.

Það sem eftir lifir árs verði 15-20% færri innlagnir á Vog en verið hefur, en við það sparast í starfsmannahaldi og rekstrarkostnaði. Starfsmönnum sem náð hafa 70 ára aldri var sagt upp störfum. Að öðru leyti verða engar uppsagnir en ekki ráðið í stað þeirra sem láta af störfum. 

mbl.is