Akstursþjónusta fatlaðra í hendur Hópbíla hf.

Strætó bs. hefur ákveðið að fela Hópbílum hf. umboð fyrir …
Strætó bs. hefur ákveðið að fela Hópbílum hf. umboð fyrir ferðaþjónustu fatlaðra. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Strætó bs. hefur ákveðið að samþykkja tilboð Hópbíla hf. um að annast akstursþjónustu fatlaðs fólks á höfuðborgarsvæðinu, að undanskildum Kópavogs- og Hafnarfjarðarbæ, fyrir 4,2 milljarða króna til fjögurra ára. Sex tilboð bárust, á bilinu 2,9 til 4,3 milljarða en tilboð Hópbíla var næsthæsta tilboðið. 

Í erindi frá innkaupaskrifstofu Reykjavíkurborgar, sem barst tilboðsgjöfum á laugardaginn 20. júní, var tilkynnt um samþykkt tilboðs Hópbíla. Kom fram að Hópbílar hf. hefðu átt lægsta gilda tilboðið en tilboð voru opnuð 7. maí og er fyrirhugað að Hópbílar hf. hefji að sinna aksturþjónustu fyrir fatlað fólk 1. júlí næstkomandi. 

Tilboðin sem bárust voru eftirfarandi:

1. Toppa ehf: 3.920.150.000 kr.

2. Teitur Jónasson ehf: 4.308.998.500 kr.

3. Akstursþjónustan ehf.: 3.224.500.000 kr.

4. Hópbílar hf.: 4.244.715.000 kr. 

5. Ferðó ehf.: 2.953.820.000 kr.

6. Snæland Grímsson ehf.: 3.776.300.000 kr.

Beiðni SAF um lengri frest hafnað

Áður en frestur rann út óskuðu Samtök ferðaþjónustunnar eftir því, við innkaupaskrifstofu Reykjavíkurborgar, að tilboðsfresti yrði seinkað um eitt ár. Kallað var eftir því á grundvelli þess að ómögulegt væri fyrir fyrirtæki að uppfylla skilyrði, t.d. um fjölda hópbifreiða, í ljósi kórónuveirufaraldursins, þar sem framleiðslumarkaðir lægju niðri.

Strætó bs. varð ekki við beiðninni og vísaði til útboðsreglna sem kröfðust þess að útbjóðendur hefðu yfir 25 sérútbúnum hópbifreiðum að ráða frá 1. júlí og þær yrðu að verða 45 talsins frá 1. september 2020. Þá geti bjóðandi til bráðabirgða notast við bifreiðar sem fullnægja ekki kröfum útboðsskilmála um lyftubúnað og myndavélakerfi, til og með 30. júní 2021.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert