Ferðamenn eigi að fá sendan pakkaferðasamning

Sólað sig á Tenerife á Spáni.
Sólað sig á Tenerife á Spáni. AFP

Neytendastofa hefur sent ferðaskrifstofum, sem hafa leyfi frá Ferðamálastofu til sölu pakkaferða, bréf þar sem áréttuð er skylda fyrirtækjanna til upplýsingagjafar. Samkvæmt ábendingum sem Neytendastofu hafa borist virðast seljendur pakkaferða ekki veita ferðamönnum nægar upplýsingar um ferðina áður en gengið er frá samningi.

Þá virðist einnig skorta á að ferðamönnum sé sendur pakkaferðasamningur í kjölfar kaupanna, að því er segir á vef Neytendastofu.

„Af þessu tilefni ákvað Neytendastofa að senda ferðaskrifstofunum leiðbeiningar um skyldur sínar og hvetja til almennra úrbóta þar sem þörf er á. Gera má ráð fyrir að Neytendastofa komi til með að taka til meðferðar mál gagnvart einstaka fyrirtækjum berist stofnuninni áfram ábendingar,“ segir stofnunin í tilkynningu. 

Á vef Neytendastofu geta ferðamenn og fyrirtæki sem selja pakkaferðir kynnt sér réttindi og skyldur við slík viðskipti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert