Ólíklegt að útlendingafrumvarp verði afgreitt

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra.
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra telur ólíklegt að frumvarp um breytingar á útlendingalögum verði afgreitt á Alþingi fyrir þinglok. Miklar tafir hafa verið á þingstörfum síðustu daga vegna langdreginna umræðna þingmanna Miðflokksins um samgöngumál og telur Áslaug líklegt að frumvarpið sé eitt þeirra sem verða að bíða næsta þingvetrar.

Í samtali við mbl.is segir Áslaug að mikilvægt sé að frumvarpið fái þinglega meðferð svo hægt sé að ræða efni þess með hliðsjón af umsögnum sem hafa borist. Hlutar frumvarpsins hafa fengið harða gagnrýni mannréttindasamtaka og þeirra er láta sig málefni flóttafólks ræða, einkum sú breyting að afnema heimild stjórnvalda til að taka til efnismeðferðar mál þeirra umsækjenda sem þegar hafa fengið vernd í öðru ríki. Átta fullorðnir og sex börn fengu í fyrra vernd hér á landi á þeim forsendum, en hefðu ekki fengið samkvæmt frumvarpinu. Höfðu þessi mál flest fengið umfjöllun í fjölmiðlum.

Ekki standi til að fækka samþykktum umsóknum

Áslaug segir ýmsar nauðsynlegar breytingar í frumvarpinu sem styrki stöðu útlendinga, svo sem lengri dvalarleyfi fyrir sérfræðinga sem koma hingað til lands en missa vinnuna og reglur um vistráðningar fyrir lengri au-pair, atvinnuréttindi fyrir einstaklinga sem fá mannúðarleyfi og auknar fjölskyldusameiningar. Þá eru einnig í frumvarpinu ákvæði sem Áslaug segir ætlað að gera stjórnvöldum kleift að afgreiða umsóknir um alþjóðlega vernd hraðar.

„Markmið okkar er að styrkja þetta neyðarkerfi. Stjórnsýslan er orðin of þung, kostnaðurinn of mikill og það sem verst er er að einstaklingar bíða of lengi eftir niðurstöðu sinna mála.“ segir Áslaug. Breytingarnar miða af því að gera stjórnvöldum kleift að afgreiða hraðar þær umsóknir sem almennt leiða ekki til alþjóðlegrar verndar.

Ekki stendur þó til að fækka þeim flóttamönnum sem tekið er á móti hérlendis, en þeir voru 531 í fyrra og hafa aldrei verið fleiri á einu ári. 

mbl.is