Telja stuðning til sumarnáms ólögmætan

Félag atvinnurekenda telur útfærslu á stuðningi menntamálaráðuneytis við sumarnám ólögmæta.
Félag atvinnurekenda telur útfærslu á stuðningi menntamálaráðuneytis við sumarnám ólögmæta. mbl.is/Ómar

Félag atvinnurekenda hefur sent Lilju Alfreðsdóttur menntamálaráðherra erindi vegna útfærslu á stuðningi ráðneytisins við sumarnám. Heldur félagið fram að útfærsla niðurgreiðslunnar sé ólögmæt og samkeppnishamlandi, og brjóti gegn samning um Evrópska efnahagssvæðið. Þetta kemur fram á vef Félags atvinnurekenda.

Þar kemur fram að skoðun FA leiði í ljós að verulegur hluti þeirrar fjárhæðar renni til endur- og símenntunarstofnana háskólanna, sem eru í beinni samkeppni við námskeið á vegum einkarekinna fræðslufyrirtækja. Þá eru sérstaklega nefnd námskeið sem ekki eru ætluð háskólanemum, háskólamenntuðum eða atvinnuleitendum, svo sem námskeið í samskiptaleikni, verkefnastjórnun og tölvufærni.

„Endurmenntunardeildir háskólanna auglýsa nú námskeið á 3.000 krónur, sem alla jafna kosta tugi þúsunda,“ segir í erindi FA. „Það gefur auga leið að einkarekin fræðslufyrirtæki geta ekki með nokkru móti keppt við þessi niðurgreiddu námskeið.“

Þá segir að FA sé kunnugt um að námskeið hjá einkareknum fræðslufyrirtækjum hafi verið felld niður, þar sem fyrirtæki sjái ekki tilgang til að keppa við niðurgreidd námskeið.

Félag atvinnurekenda hefur sent Lilju Alfreðsdóttur, mennta- og menningarmálaráðherra, erindi.
Félag atvinnurekenda hefur sent Lilju Alfreðsdóttur, mennta- og menningarmálaráðherra, erindi. mbl.is/Eggert

Útfærslan brjóti gegn EES

Í erindinu stendur að útfærsla niðurgreiðslunnar brjóti gegn 61. grein samnings um Evrópska efnahafssvæðið, sem leggur bann við samkeppnishamlandi ríkisstyrkjum, sem hafa áhrif á viðskipti milli aðildarríkja EES.

Þá brjóti niðurgreiðsla ríkisins, að mati FA, einnig gegn lögum um opinbera háskóla og samkeppnislögum.

„Auðveldlega hefði mátt útfæra a.m.k. hluta stuðningsins með öðrum hætti, til dæmis á svipaðan máta of „ferðagjöf“ stjórnvalda með e.k. ávísanakerfi, þar sem áhugasamir gætu nýtt námstyrk frá ráðuneytinu ýmist hjá háskólum sem njóta ríkisstuðnings eða hjá einkareknum fræðslufyrirtækjum,“ segir í erindinu.

Samkvæmt upplýsingum stjórnarráðsins hafa rúmlega fimm þúsund nemendur skráð sig í sumarnám háskólanna og yfir 300 í sumarnám framhaldsskólanna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert