80 sagt upp: „Ekki ákvörðun sem þú tekur af léttúð“

80 af 130 starfsmönnum kísilversins PCC á Bakka var sagt …
80 af 130 starfsmönnum kísilversins PCC á Bakka var sagt upp störfum í dag. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

„Hljóðið er mjög þungt á degi sem þessum. Þetta eru nauðsynlegar aðgerðir en ekki ákvörðun sem þú tekur af léttúð,“ segir Rúnar Sigurpálsson, forstjóri kísilverksmiðjunnar PCC á Bakka, í samtali við mbl.is.

Í dag fengu 80 af 130 starfsmönnum fyrirtækisins uppsagnarbréf um leið og framleiðsla var stöðvuð í verksmiðjunni. Rúnar segir það hafa verið þverskurð af fólki í fyrirtækinu sem var sagt upp í dag.

Kórónuveirufaraldurinn er sagður ástæða fyrir aðgerðunum. Áhrif hans á verð og eftirspurn kísilmálms á heimsmarkaði hafa verið verulega neikvæð. Í tilkynningu frá fyrirtækinu segir að í júlílok verði slökkt á báðum ofnum verksmiðjunnar og því verði stórum hluta starfsfólks sagt upp.

Þarf talsverða breytingu á verði til að fara af stað aftur

Rúnar segist binda vonir við að geta ráðið fólkið aftur til starfa: „Ég vona að ég nái að endurheimta mitt fólk til baka. Það er ekkert flóknara en það.“

Hann segir erfitt að skera úr um hve lengi ástandið á markaðnum vari. „Hvort þetta verði sex mánuðir eða tólf mánuðir eða eitthvað annað get ég ekki sagt til um. Við erum að kljást við alheimsfaraldur í augnablikinu sem enginn veit í sjálfu sér hve lengi mun vara,“ segir hann.

Rúnar segir að til þess að hægt sé að fara aftur af stað með framleiðsluna þurfi fyrirtækið að sjá talsverða breytingu á verðinu frá því sem nú er. „Mín reynsla af hrávörumarkaðnum er þó sú að þegar viðskiptin byrja eru þau mjög öflug, þannig að ég er að vona að sú hegðun muni ekkert breytast,“ segir Rúnar.

Viðhald og endurbætur út ágúst

Slökkt verður á ofnunum í júlí en félagið mun sinna viðhaldi og endurbótum á hreinsivirki verksmiðjunnar, sem felur meðal annars í sér að hluti þaksins verður fjarlægður og nýjum tækjabúnaði komið fyrir. Þessari vinnu ætti að vera lokið í ágústlok. 

Í tilkynningu er sagt að félagið hafi leitað allra leiða til að halda framleiðslunni gangandi við þessar aðstæður, en vegna þeirrar óvissu sem uppi er í heimshagkerfinu hafi þurft að grípa til stöðvunarinnar.

mbl.is