Féllu tvo metra og enduðu á ljósastaur

Verkefni lögreglunnar voru fjölbreytt í gærkvöldi og nótt. Mynd úr …
Verkefni lögreglunnar voru fjölbreytt í gærkvöldi og nótt. Mynd úr safni. mbl.is/Eggert

Nokkuð var um útköll til lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu í nótt sem sinnti ýmsum verkefnum. Flest verkefnin sneru að umferðarslysum eða ökumönnum sem grunaðir voru um akstur undir áhrifum áfengis eða fíkniefna.

Ökumaður og farþegi í einni bifreið sem var stöðvuð voru grunaðir um vörslu og sölu fíkniefna og lyfja. Haldlögð voru ætluð fíkniefni, lyf og reiðufé, sem er ætlaður söluhagnaður. Mennirnir voru látnir lausir að lokinni skýrslutöku.

Málið tilkynnt til barnaverndar

Rétt fyrir hálftíu í gærkvöldi var tilkynnt um umferðarslys við Fífuna í Kópavogi en þar höfðu tvær ungar stúlkur á einni vespu misst stjórn á henni með þeim afleiðingum að þær fóru yfir hól og féllu tvo metra niður þar sem þær enduðu á ljósastaur.

Hvorug stúlkan var með hjálm og voru þær fluttar með sjúkrabifreið á bráðamóttökuna til aðhlynningar. Þær voru með áverka á höfði, höndum og hnjám. Þar sem um börn var að ræða var tilkynning send til barnaverndar.

Tveir handteknir vegna ráns og líkamsárásar

Annað umferðarslys átti sér stað í miðbæ Reykjavíkur í gærkvöldi þegar kona á reiðhjóli hjólaði á hurð bifreiðar, sem hafði verið opnuð fyrir akstursstefnu konunnar. Hún féll af hjólinu og fékk mögulega heilahristing að mati sjúkraflutningamanna. Hún var illa áttuð eftir slysið og ekki var hægt að ræða við hana á vettvangi. Hún var því flutt með sjúkrabifreið á bráðamóttöku.

Tveir menn voru handteknir í Vogahverfi grunaðir um rán og líkamsárás. Þeir voru handteknir og vistaðir í fangageymslu. Brotaþoli kvaðst vera með áverka í andliti.

Þá var tilkynnt um innbrot í Fossvogshverfi.

mbl.is