Staða hinna handteknu til skoðunar

mbl.is/Kristinn Magnússon

Ásgeir Þór Ásgeirsson yfirlögregluþjónn segir að verið sé að skoða hvaða tengingu þeir þrír, sem voru handteknir vegna brunans í íbúðarhúsi á horni Vesturgötu og Bræðraborgarstígs, hafa við brunann. 

Spurður hvort grunur leiki á um að eitthvað saknæmt hafi átt sér stað segir Ásgeir:

„[Hinir handteknu] voru bara á og við vettvanginn og við erum að skoða hvaða tengingu þeir hafa við þetta húsnæði.“

Ekki er ljóst hvort hinir handteknu séu íbúar hússins.

Lögregla telur sig ekki búna að fullleita húsið, að sögn Ásgeirs. 

Rannsókn hafin

Flestir sem bjuggu sem í húsinu eru af erlendu bergi brotnir, að sögn Ásgeirs, sem getur þó ekki fullyrt um að það eigi við um alla íbúana. „Stór hluti af fólkinu sem býr þarna og ég hef rætt við eru erlendir ríkisborgarar.“

Rannsókn á upptökum brunans hófst strax en tildrög hans eru enn á huldu. „Við byrjuðum strax að taka myndir, fylgjast með og við skrásetjum allt sem gerist og þar fram eftir götunum. Rannsókn hefst bara um leið og útkall berst,“ segir Ásgeir. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert