Borgar sig þó að það sé dýrara

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra.
Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra. mbl.is/Árni Sæberg

Sigurður Ingi Jóhannsson samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra segir að jafnvel þó að það kunni að kosta ríkissjóð meira að fela einkaaðilum framkvæmd samgönguverkefna, borgi það sig vegna örvunar í hagkerfinu sem af hlýst. Þá geri það stjórnvöldum kleift að fara fyrr í verkefni sem annars hefðu þurft að bíða, sem aftur auki arðsemi ráðstöfunarinnar.

Andrés Ingi Jónsson þingmaður utan flokka hefur gagnrýnt frumvarp sem gefur heimild fyrir þessari leið, sagt það „grímulaust“ og ástæðu þess meðal annars vera þá að sumum þyki eðlilegt að „ríkið búi til peningakrana frekar en að það framkvæmi sjálft.“ Í ræðu á Alþingi í maí spurði hann jafnframt: „Hafa skattgreiðendur ekkert um það að segja hvort þeir borgi fjórðungi meira fyrir vegina sem þeir að keyra en þeir þyrftu að gera ef þeir væru einfaldlega greiddir úr sameiginlegum sjóðum?“

Félag íslenskra bifreiðaeigenda hefur einnig gagnrýnt frumvarpið, einkum þá staðreynd að óhjákvæmilega séu framkvæmdir á vegum einkaaðila dýrari en þegar ríkið sér um þær.

Sigurður Ingi: „Það eru fjórir aðilar sem eiga að hagnast á þessu: Það er notandinn, sem greiðir lægra gjald en við að keyra gömlu leiðina. Það er framkvæmdaraðilinn, sem vonandi kemur út í plús. Það er fjármögnunaraðilinn, sem þarf að fá einhverja eðlilega ávöxtun á peningana sína. Svo er það samfélagið, vegna þess að þetta er þjóðhagslega arðsamt.“

20-30% dýrara fyrir einkaaðila að ráðast í verkið

Umrætt frumvarp veitir Vegagerðinni heimild til þess að bjóða út og gera samning við einkaaðila um að þeir sinni ákveðnum samgönguframkvæmdum. Þá annist þeir fjármögnun verkefnanna í heild eða að hluta og taka með öðrum hætti áhættuna af gerð og rekstri ákveðinna opinberra mannvirkja, svosem um hringveginn á þremur köflum, Sundabraut og tvöföldun Hvalfjarðarganga.

Það er dýrara fyrir einkaaðila að ráðast í framkvæmdir en ríkið, eins og segir í frumvarpinu: „Á það hefur verið bent að fjármagnskostnaður einkaaðila sé alla jafna hærri en hins opinbera og þar með sé fjárhagslegt bolmagn þeirra yfirleitt minna en hins opinbera. Það getur haft í för með sér að samningar við undirverktaka verða óhagstæðari og að vátryggingar verði áhættu- og/eða kostnaðarsamari.“

Áfram segir í frumvarpinu: „Reynslan í Evrópu hefur verið sú að vegna tilfærslu á áhættu og hærri fjármagnskostnaðar einkaaðila hafa samvinnuverkefni kostað 20–30% meira en verkefni sem hafa verið fjármögnuð með hefðbundinni aðferð. Á móti þarf þó að meta samfélagslegan ábata í formi nýsköpunar, styttri framkvæmdatíma og minni áhættu hjá hinu opinbera.“

Ef arðsamar framkvæmdir bíða, tapar þjóðfélagið

Þrátt fyrir þennan aukna kostnað segir Sigurður borga sig að fara þessa leið af ofangreindum ástæðum. Hann telur leiðina forsendu fyrir því að geta ráðist nógu fljótt í nauðsynlegar aðgerðir. 

Sigurður segir þetta gert að vandlega íhuguðu máli. „Þessar leiðir hafa verið til skoðunar lengi en nú er sérstaklega gott lag að koma fleiri arðsömum verkefnum í framkvæmd, því hver er hinn valkosturinn? Hann er að fá fjármagnið beint úr ríkissjóði og ef þú átt peninga til þess eru það takmörkuð gæði. Þá ferðu ekki í eins margar framkvæmdir. Ef það eru mjög arðsamar framkvæmdir sem bíða í tíu til fimmtán ár þá tapar þjóðfélagið þeirri þjóðhagslegu arðsemi að hafa farið í það strax,“ útskýrir Sigurður.

Þar að auki sé staða ríkissjóðs nú slík að hann þyrfti að taka lán til að ráðast í umræddar framkvæmdir: „Þegar menn segja að ríkið eigi að taka lán þá virðast þeir gleyma því að í því að ríkið taki lán borgar ríkið líka þann kostnað [vextina], þannig að í þessari leið felast tækifæri til þess að fá nýjustu hugmyndir, fleiri augu, nýsköpun og nýjustu þekkingu og að nýta tækifærið sem nú er í samfélaginu með lágum vöxtum og lágu atvinnustigi til að fara á hagkvæman hátt í fleiri framkvæmdir,“ segir Sigurður.

Við munna Hvalfjarðarganga 28. september 2018, daginn sem gjaldtöku þar …
Við munna Hvalfjarðarganga 28. september 2018, daginn sem gjaldtöku þar var hætt. Gerð ganganna var umdeild á sínum tíma, en þau voru fljót að borga sig og áttu eftir að gjörbreyta samfélaginu á Vesturlandi, íbúaþróun þar og atvinnulífi. mbl.is/Árni Sæberg

Einkaaðilar sjái um innheimtu gjalda í stórum framkvæmdum

Þegar einkaaðili fjármagnar og annast uppbyggingu mannvirkis sem þessa eru í grunninn þrjár leiðir færar í endurheimt hans á kostnaðinum við framkvæmdina.

Ríkið getur í fyrsta lagi einfaldlega borgað honum fyrir að hafa séð um verkið óháð umferð um mannvirkið. Í öðru lagi getur aðilinn sleppt því að þiggja þess konar greiðslu frá ríkinu og í raun frekar tekið landið á leigu og tekið svo gjald fyrir umferð um mannvirkið sjálfur þar til það er komið upp í kostnað. Gert er ráð fyrir að sú gjaldtaka standi ekki lengur en í 30 ár. Þriðja leiðin er blönduð leið, þar sem ríkið tryggir aðilanum ákveðna fasta greiðslu, en hann annist þó engu síður innheimtu af veggjöldum eftir að umferð opnar á svæðinu.

Sigurður Ingi segir að í frumvarpinu sé litið til þess að í litlum framkvæmdum verði miðað við blönduðu leiðina en í stærri framkvæmdum verði meira um að einkaaðilarnir sjái sjálfir um endurheimt kostnaðarins við framkvæmdirnar, rétt eins og í Hvalfjarðargöngum, sem Sigurður segir mjög miðað við í þessu frumvarpi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert