Einn mannskæðasti bruni á síðustu 30-40 árum

Jón Viðar Matthíasson slökkviliðsstjóri.
Jón Viðar Matthíasson slökkviliðsstjóri. mbl.is/Kristinn Magnússon

Jón Viðar Matthíasson, slökkviliðsstjóri hjá slökkviliði höfuðborg­ar­svæðis­ins, segir aðspurður að bruninn sem varð á Bræðraborgarstíg í gær hafi verið einn sá mannskæðasti á síðastliðnum 30-40 árum. 

Þrír létust í brunanum á Bræðraborgarstíg og eru tveir á spítala vegna hans, annar á gjörgæslu. Hinn var færður af gjörgæslu yfir á almenna deild á hádegi í dag, að sögn Ásgeirs Þórs Ásgeirssonar yfirlögregluþjóns. Á blaðamannafundi í dag veitti hann ekki frekari upplýsingar um líðan þeirra sem á spítala liggja.

Jafn margir létust í bruna á Þingeyri árið 2002 þegar hjón og barn þeirra brunnu inni, að því er mbl.is hefur fengið staðfest hjá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun.

Ásgeir Þór Ásgeirsson yfirlögregluþjónn.
Ásgeir Þór Ásgeirsson yfirlögregluþjónn. mbl.is/Kristinn Magnússon

Skoða tengsl við starfsmannaleigur ef tilefni þykir til

Bruninn er rannsakaður sem sakamál en nokkuð ljóst er að hann hafi kviknað af mannavöldum. Maður á sjötugsaldri sem bjó í húsinu var handtekinn og vistaður í gæsluvarðhald vegna þess en sá var í annarlegu ástandi fyrir utan rússneska sendiráðið á sama tíma og tilkynning barst um brunann. Ekki er vitað hvers vegna hann var við rússneska sendiráðið. 

„Við teljum okkur geta fullyrt að eldurinn hafi kviknað að mannavöldum,“ sagði Ásgeir.

Hann vildi ekki tjá sig um það hvort eigandi hússins hefði verið boðaður í skýrslutöku en sagði að öllum steinum verði velt við. Þannig verða tengsl starfsmannaleiga við húsið skoðuð ef tilefni þykir til en eins og áður hefur komið fram hefur stéttarfélagið Efling sagt að starfsfólk starfsmannaleigu hafi búið í húsinu.

Lögreglan var kölluð að húsinu nóttina áður en eldurinn kviknaði. Ásgeir sagði ekki hægt að staðfesta hvort það útkall hafi verið vegna mannsins sem nú hefur verið handtekinn. 

Niðurstaða úr rannsókn lögreglu mun taka einhverjar vikur, að sögn Ásgeirs.

mbl.is