Gerbreytir rannsókninni

Jón Viðar Matthíasson slökkviliðsstjóri á blaðamannafundi síðdegis í dag.
Jón Viðar Matthíasson slökkviliðsstjóri á blaðamannafundi síðdegis í dag. mbl.is/Kristinn Magnússon

Jón Viðar Matthíasson slökkviliðsstjóri á höfuðborgarsvæðinu segir að grunur um íkveikju á Bræðraborgarstíg 1 gerbreyti öllu rannsóknarferlinu. Hann segir að skoðun á eldvörnum fari vegna þess gruns fram á öðrum forsendum. Þá segir hann að verið sé að styðja við slökkviliðsfólkið sem var á vettvangi, en að svakalega erfitt sé að glíma við svona atburði þegar niðurstaðan er þessi.

Þrír létust í eldsvoðanum sem hófst síðdegis í gær og lauk ekki fyrr en í nótt. Tvö lík fundust inni í húsinu en lögreglan hefur ekki staðfest með hvaða hætti þriðji einstaklingurinn lést. Það var þó á vettvangi brunans. Tveir eru síðan enn á gjörgæslu.

Fram kom á blaðamannafundi á sjötta tímanum í dag að maður á sjötugsaldri er í gæsluvarðhaldi í tengslum við bruna hússins. Fram að þessu hefur áhersla umfjöllunar um brunann einkum verið á húsinu sjálfu og jafnvel eigendum þess, þar sem það hefur verið til umræðu hvort eldvarnir hafi verið ónógar á staðnum og aðstæður íbúanna ófulllnægjandi. Enda þótt slíkt sé ekki útilokað með þessu, varpar íkveikjuþátturinn nýju ljósi á atburðarásina.

„Húsið verður náttúrulega skoðað óháð því hvort þetta sé íkveikja eða ekki. En maður verður að skoða það með tilliti til þess að þetta hafi verið íkveikja. Það verður að taka tillit til þess,” segir Jón Viðar í samtali við mbl.is.

Þarf að undirstrika ábyrgð eigenda

Jón Viðar segir eldsvoðann annars örugglega koma til með að hafa áhrif á eldvarnir á Íslandi.

 Saga eldvarna er því miður oft hörmungasaga. Það kemur eitthvað fyrir, menn læra af því og færa það síðan inn í löggjöfina og endurbæta þar með hlutina. Hvort það muni eiga sér stað núna kemur í ljós þegar Húsnæðis- og mannvirkjastofnun skilar sinni skýrslu, því það er þeirra hlutverk að hafa áhrif á löggjöf, reglugerðir og annað út frá þeirri reynslu sem við göngum í gegnum,” segir Jón.

Eldurinn breiddist gríðarlega hratt út í rýminu en talið er …
Eldurinn breiddist gríðarlega hratt út í rýminu en talið er að um íkveikju hafi verið að ræða. Maður er í haldi lögreglu vegna málsins. mbl.is/Kristinn Magnússon

Sjónarmiðin sem Jón segir að slökkviliðið muni setja fram muni meðal annars varða ábyrgð eigenda. Við gætum til dæmis undirstrikað með einhverjum hætti ábyrgð eiganda. Þú gerir ekki breytingar á húsnæði nema að fá nýtt byggingaleyfi og að menn séu meðvitaðir um allt slíkt. Við erum að lenda í því alltof mikið núna að menn séu ekki meðvitaðir, breyta húsnæði og kollvarpa allri starfsemi,” segir hann. 

Að breytingar hafi verið gerðar án endurnýjun byggingaleyfis segir Jón að hafi ekki nauðsynlega verið tilfellið nú, en að of oft hafi slíkt komið á daginn á ögurstundu, eins og til dæmis í Miðhraunsbrunanum 2018.

Of hár íbúafjöldi eigi að hringja bjöllum í þjóðskrá

Annað sjónarmið sem slökkviliðið mun koma á framfæri að sögn Jóns Viðars er að búið verði þannig um hnútana að einhvers konar flöggun eigi sér stað í kerfi þjóðskrár ef íbúatala er orðin of há miðað við fermetrafjölda. 

73 eru með skráð lögheimili á Bræðraborgarstíg samkvæmt þjóðskrá, sem stingur í stúf við þær upplýsingar lögreglu að sex hafi verið búsett á efri hæðinni. Samkvæmt upplýsingum sem Þjóðskrá hefur veitt mbl.is hefur enginn þessara 73 verið skráður þar til búsetu lengur en frá 2015. Samtals hafa 188 einstaklingar skráð sig til búsetu í húsinu frá 2007 og því hafa 115 manns flutt úr húsinu frá þeim tíma. 

Á sama tíma er skráð íbúðarhúsnæði í húsinu aðeins um 192 fermetrar, en restin skráð sem leikskóli og skrifstofuhúsnæði. Jón segir að búseta fólks hafi þó aðeins verið í þeim hluta sem er skráður sem íbúðarhúsnæði.

Svakalega erfitt að glíma við svona

Eins og sagt var frá á mbl.is í morgun er sjálfstæð rannsókn Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar hafin. Hún getur tekið nokkra mánuði en endar með skýrslu þar sem farið er yfir hvaða lærdóm má draga af brunanum.

Í millitíðinni segir Jón að hugað sé að því starfsfólki slökkviliðs sem var á vettvangi og gekk jafnvel fram á látna einstaklinga í brunanum. “Aðalfókusinn hjá okkur er að huga að þeim einstaklingum sem voru í verkefninu með félagastuðningi. Það er svakalega erfitt fyrir menn að glíma við svona hluti þegar þeir eru ekki sáttir við niðurstöðuna,” segir hann.

Bregðast þurfti hratt við og aðstæður voru einstaklega erfiðar.
Bregðast þurfti hratt við og aðstæður voru einstaklega erfiðar. mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert