Maðurinn úrskurðaður í vikulangt varðhald

Blaðamannafundur lögreglunnar og slökkviliðsins. Ásgeir Þór Ásgeirsson yfirlögregluþjónn og Jón …
Blaðamannafundur lögreglunnar og slökkviliðsins. Ásgeir Þór Ásgeirsson yfirlögregluþjónn og Jón Viðar Matthíasson slökkviliðsstjóri. mbl.is/Kristinn Magnússon

Maður á sjötugsaldri sem lét illum látum við rússneska sendiráðið í gær og var handtekinn af lögreglu hefur verið úrskurðaður í vikulangt gæsluvarðhald vegna mögulegra tengsla hans við brunann á Bræðraborgarstíg. Þetta kom fram í máli Ásgeirs Þórs Ásgeirssonar yfirlögregluþjóns á blaðamannafundi í dag. 

Lögreglan hefur rökstuddan grun um að eldurinn hafi kviknað af mannavöldum en sá handtekni bjó í húsinu og eldurinn kom upp við vistarverur hans.  Lögreglan krafðist vikulangs gæsluvarðhalds yfir honum í dag og féllst dómari á það. 

Fundust látin á þriðju hæð hússins

Þrír létust í brunanum en ekki hefur tekist að bera kennsl á hin látnu með óyggjandi hætti, að sögn Ásgeirs. Slökkviliðsmenn fundu tvo hinna látnu á þriðju hæð hússins á sjöunda tímanum í gærkvöld en tilkynning um brunann barst slökkviliði klukkan korter yfir þrjú í gær. 

mbl.is/Kristinn Magnússon

Tveir voru handteknir á vettvangi, eins og áður hefur komið fram, en það var vegna þess að þeir hlýddu ekki fyrirmælum lögreglu og hlupu inn í brennandi húsið. Þeim var sleppt að lokinni yfirheyrslu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert