Nær allar mótvægisaðgerðir vegna heimsfaraldurs komnar til framkvæmda

Nær allar mótvægisaðgerðir sem gripið hefur verið til vegna heimsfaraldurs kórónuveiru eru komnar til framkvæmda. Eftir stendur greiðsla launa á uppsagnarfresti, en stefnt er að því að fyrsti hluti komi til greiðslu fyrir 20. júlí, og stuðningslán þar sem verið er að leggja lokahönd á umsóknargátt.

Þetta kemur fram á vef fjármálaráðuneytisins. 

„Meirihluti fyrirtækja er ánægður með aðgerðirnar samkvæmt könnun sem Gallup gerði fyrir fjármála- og efnahagsráðuneytið í apríl og maí. Um helmingur fyrirtækja sem þátt tóku í könnuninni telur sig vel í stakk búinn til að takast á við tímabundin áföll á næstu mánuðum, en innan við fjórðungur stendur illa,“ segir í tilkynningunni. 

Ágæt staða fyrirtækja endurspeglist í minni eftirspurn eftir lánum

Þá kemur fram, að hátt hlutfall fyrirtækja sem telji stöðu sína ágæta virðist endurspeglast í minni eftirspurn eftir viðbótar- og stuðningslánum og frestunum skattgreiðslna en búist var við í upphafi sem gæti bent til þess að lausafjárvandi fyrirtækja sé ekki jafn alvarlegur og óttast var um tíma, m.a. vegna annarra aðgerða.

Þá segir, að frá því að lög um hlutabætur tóku gildi hafi verið greiddir út tæpir 16 milljarðar. 

Hlutfall atvinnuleysis tengt hlutabótaleiðinni lækkaði úr 10,3% í 5,6% á milli apríl og maí.

Hafa lokið samningum um stuðningslán

Einnig kemur fram, að Seðlabankinn og viðskiptabankarnir hafi lokið samningum um stuðningslán og hafi Seðlabankinn tilkynnt að hann muni veita bönkunum sérstök veðlán á meginvöxtum (nú 1%) til fjármögnunar lánanna.

„Bankarnir telja þó nokkra eftirspurn vera eftir stuðningslánum sem komi að einhverju leyti í stað viðbótarlána (brúarlána). Umsóknarferlið er í lokaprófunum hjá bönkunum og verður í kjölfarið opnað fyrir umsóknir, en upplýsingasíðu um lánin, ásamt reiknivél, er að finna á Ísland.is.

Ekkert til fyrirstöðu að veita brúarlán

Þá segir ráðuneytið, að ekkert sé til fyrirstöðu fyrir bankana að veita brúarlán. Seðlabankinn muni láta ráðuneytinu reglulega í té samantekt með lykilupplýsingum um lánin. Mun ráðuneytið birta opinberlega upplýsingar um lántaka sem njóta ábyrgðar, innan 12 mánaða frá því að lán með ábyrgð er veitt.

Nánar hér.  

mbl.is