Smitaðir greinast ítrekað smitlausir

Mynd af ferðamönnum á Keflavíkurflugvelli eftir að skimanir hófust þar. …
Mynd af ferðamönnum á Keflavíkurflugvelli eftir að skimanir hófust þar. Fyrsta innanlandssmit á landinu frá miðjum maí má rekja til þess að einstaklingur, sem var í raun smitaður, greindist ekki með COVID-19 í sýnatöku við landamæri landsins. Það var ekki fyrr en átta dögum síðar sem kom í ljós að viðkomandi væri smitaður. mbl.is/Kristinn Magnússon

Knattspyrnukonan sem kom til landsins smituð af kórónuveirunni hafði greinst smitlaus við landamærin 17. júní. Það var ekki fyrr en boð bárust um að smit hefði greinst hjá einstaklingi sem hún hafði verið í samskiptum við í Bandaríkjunum sem hún fór aftur í sýnatöku og greindist hún þá með veiruna, átta dögum seinna.

Ekki ósvipaða sögu er að segja af tveimur lögreglumönnum sem greindust eftir samskipti við rúmenska ríkisborgara í þarsíðustu viku. Samskiptin voru á fimmtudegi, þeir fóru í sýnatöku á mánudegi, greindust þá ekki með veiruna, en fóru aftur í sýnatöku þremur dögum síðar og greindust þá með veiruna.

PCR-sýnataka, sem er sú sem er notast við á Íslandi sem víðar, greinir oft ekki kórónuveiru fyrr en einhverjum dögum eftir að einstaklingur smitast af henni.

„Það er mjög erfitt og hefur verið vandamál frá upphafi,“ segir Kjartan Hreinn Njálsson, aðstoðarmaður landlæknis. Lítið sé við þessu að gera: „Svona virkar veiran í líkamanum.“

Aðspurður segist hann ekki þekkja til þess að sérstaklega hafi komið til tals að hvetja fólk til þess að fara aftur í sýnatöku að nokkrum dögum liðnum frá heimkomu. Hann segir engu síður mikilvægt að fólk sé vart um sig, eins og þríeykið hefur hamrað á undanfarið, því hættan er ekki liðin hjá. 

Smitrakningarteymið snýr aftur í gamla farið

Umfangsmikil smitrakning stendur yfir vegna umræddrar knattspyrnukonu og starfsmanns í sjávarútvegsráðuneytinu, sem greindist með veiruna í morgun eftir samskipti við knattspyrnukonuna. Kjartan segir smitrakningarteymið vera að snúa aftur í gamla farið, en bendir á að það hafi aldrei hætt störfum.

Um er að ræða fyrsta innanlandssmit frá því um miðjan maí og viðbúnaður er því mikill. Unnið er eftir sömu verkferlum og viðhafðir voru þegar hópsýkingar komu upp í Vestmannaeyjum og á Bolungarvík. 

Þegar hafa 70 manns verið sendir í sóttkví vegna smitanna. Eftir er að senda um 200 enn. Gera má ráð fyrir að farið verði nánar út í þessi mál á blaðamannafundi sóttvarnayfirvalda og forsætisráðherra klukkan 16 í dag.

Sagt hefur verið frá Íslendingum sem lenda í því að …
Sagt hefur verið frá Íslendingum sem lenda í því að vera greindir kórónuveirulausir fyrst um sinn en reynast svo smitaðir nokkrum dögum síðar. Morgunblaðið/Íris

Veiran veikist ekki á sumrin

Kjartan segir að enn muni taka daga eða vikur að sjá hver áhrif þessara smita verði. Víðtæk skimun er að hefjast á meðal þeirra sem hafa verið í samskiptum við hina smituðu.

Kjartan segir þá að of snemmt sé að segja hvort þetta setji áform um afléttingar í uppnám en segir að vafalaust væri hópsýking á höfuðborgarsvæðinu breyta í ferlinu að baki þeim ákvörðunum sem sóttvarnalæknir og yfirlögregluþjónn taka á næstu mánuðum.

Kenningum hefur verið varpað fram frá upphafi faraldursins um að veiran komi til með að veikjast með sumrinu því hún þrífist illa í loftslaginu. Kjartan segir að ekkert sé komið fram sem renni stoðum undir þær kenningar og að sóttvarnayfirvöld hafi í ferlinu ekki bundið vonir við að málum vindi fram eftir slíku mynstri. Sömuleiðis geisar veiran af hörku í löndum þar sem er hásumar. Það stöðvar hana ekki. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert