Stím málið: Fengu skilorðsbundna fangelsisdóma

Lárus Welding, fyrrverandi bankastjóri Glitnis.
Lárus Welding, fyrrverandi bankastjóri Glitnis. mbl.is/Kristinn Magnússon

Landsréttur dæmdi í dag Lárus Welding, fyrr­ver­andi banka­stjóra Glitnis, í fimm ára skilorðsbundið fangelsi fyrir umboðssvik í Stím-málinu svokallaða. Jóhannes Baldursson var í sama máli dæmdur í skilorðsbundið átján mánaða fangelsi fyrir umboðssvik og Þorvaldur Lúðvíksson í tólf mánaða fangelsi fyrir hlutdeild í umboðssvikum.

Landsréttur ákvað að dæma mennina í skilorðsbundið fangelsi „þrátt fyrir alvarleika háttseminnar og þyngd“ refsinganna „í ljósi hinna miklu tafa sem orðið hafa á málinu“, að því er fram kemur í dómi Landsréttar. 

Umboðssvik Lárusar snúa aðallega að því þegar Lárus lét Glitni lána félaginu Stím ehf. rúma tuttugu milljarða króna svo félagið gæti fjárfest í hlutabréfum í bankanum. Þorvaldur og Jóhannes voru aftur á móti sakfelldir fyrir viðskiptafléttu sem einnig tengdist Stím. Þannig létu þeir fjárfestingasjóð sem var undir stjórn Glitnis kaupa skuldabréf sem Stím skuldaði fjárfestingabankanum Saga Capital en Þorvaldur var forstjóri bankans. 

Milduðu dóma yfir Þorvaldi og Jóhannesi

Lárus hafði áður verið dæmdur til fimm ára fangelsisvistar í Héraðsdómi Reykjavík svo Landsréttur staðfesti þá fangelsisvist en mildaði dómana yfir Jóhannesi og Þorvaldi um hálft ár hvorn. Þá hafði héraðsdómur Reykjavíkur ekki séð ástæðu til að skilorðsbinda refsingu mannanna en Landsréttur ákvað að svo skyldi vera vegna áðurnefndra ástæðna. 

Eins og áður segir hefur málið dregist mjög á langinn en mennirnir frömdu brotin fyrir tólf og þrettán árum síðan. Í dómi Landsréttar segir að mennirnir þrír hafi átt þátt í því hversu langan tíma það tók en ekki sé hægt að kenna þeim um það hversu mjög málið dróst á langinn. 

„Þannig er til að mynda ljóst að hin endurtekna málsmeðferð í héraði, sem kom til vegna vanhæfis dómara, tók ein og sér tvö ár, auk þess sem víða hafa orðið óútskýrðar tafir á rannsókn og meðferð málsins hjá lögreglu og fyrir dómi“, segir í dómnum.

mbl.is