Breytingar í kjölfar harmleiks

mbl.is/Kristinn Magnússon

Enginn dælubílanna sem sendir voru á vettvang til að glíma við eldsvoðann á Bræðraborgarstíg 1 var fullmannaður. Þetta segir Jón Viðar Matthíasson, slökkviliðsstjóri hjá slökkviliðinu á höfuðborgarsvæðinu, í samtali við mbl.is.

Slökkviliðið á höfuðborgarsvæðinu vinnur samkvæmt brunavarnaáætlun, sem þarf að vera samþykkt af sveitarstjórn og húsnæðis- og mannvirkjastofnun. Á höfuðborgarsvæðinu eru fjórar stöðvar, í Skógarhlíð, Tunguhálsi, Hafnarfirði og Mosfellsbæ, og gert er ráð fyrir að fimm séu á hverjum dælubíl. Einnig er gert ráð fyrir að starfsmenn dælubíla geti nýst í neyðarsjúkraflutninga.

Svo vildi til að á degi brunans, fimmtudeginum 25. júní, voru mörg brýn verkefni á borðum slökkviliðsins, og því voru dælubílarnir sem sendir voru á staðinn ekki fullmannaðir. Slökkviliðsmenn í Hafnarfirði og Mosfellsbæ voru að sinna verkefnum á sjúkrabílum, og menn frá stöðinni í Skógarhlíð voru að flytja sjúkling frá gjörgæslu í Fossvogi að gjörgæslu á Hringbraut þegar tilkynnt var um brunann á Bræðraborgarstíg. Vísir greindi fyrst frá.

Vegna gjörgæsluflutninganna var dælubíll staddur við Hringbraut, mannaður þremur mönnum, og var sá bíll sendur fyrst á vettvang.

„Í grunninn er hugsunin sú að bílarnir séu þannig mannaðir að hægt sé að fara í reykköfun við komu án þess að skapa óþarfa hættu fyrir slökkviliðsmenn,“ segir Jón Viðar, en hann telur mönnunina ekki hafa haft mikið gildi í þessu tilfelli, þar sem ákafinn í brunanum hafi verið mjög mikill. Í slíkum aðstæðum skiptir viðbragðstíminn meira máli en að vera fullmannaðir.

Brunavarnaáætlun veitir þó svigrúm fyrir svokölluð samleiðaraáhrif, þegar hægt er að leggja saman mannskap frá mismunandi stöðvum til að takast á við verkefni.

Varðstjórinn keyrði dælubílinn

Við aðkomu slökkviliðs var fólk í gluggum hússins sem þurfti að komast út. Sumir stukku, en aðrir komust niður í stiga. „Viðbragðstíminn var mjög góður hjá okkur, en tíminn sem fólkið hafði var styttri. Þetta var enginn tími sem við höfðum. Þetta var svo hrikalegur eldsvoði,“ segir Jón Viðar.

Jón Viðar segir að þegar svona alvarleg atvik koma upp fari allir sem málið varðar yfir hlutina. Hann segir að hver slökkviliðsstjóri myndi vilja hafa fullmannað í öllum bílum, en það hafi orðið til happs að jafnvel þótt hluti slökkviliðsmanna væri að sinna öðrum verkefnum hafi verið eldgallar fyrir þá í dælubílnum. „Gert er ráð fyrir að ef þú losnar úr verkefni getirðu farið beint á eldstað og þá er allur búnaður til staðar í bílnum,“ segir Jón Viðar.

Í aðstæðum sem þessum neyðist slökkvilið til að velja á milli þess að vera fullmannað eða að bregðast við neyðartilvikum í tæka tíð.

„Við flokkum okkar verkefni í forgang eitt, tvö, þrjú og fjögur. Forgangur eitt og tvö er það sem er í okkar huga neyðartilvik og verður að svara á leifturhraða. Þarna erum við með þannig verkefni í gangi á okkar stöðvum.“

Hann segir varðstjóra á öllum stöðvum meðvitaða um stöðuna hjá hinum stöðvunum á höfuðborgarsvæðinu og ákvarðanir um úthlutun mannskapar séu teknar í samræmi við það. Á stöðinni í Hafnarfirði voru þrír, þá keyrði varðstjórinn dælubílinn á Bræðraborgarstíg, sem hann gerir vanalega ekki. Sá sem keyrir bílinn vanalega er sérstaklega skráður ökumaður. Það var til þess að hinir sem voru skráðir með honum gætu sett á sig reykköfunartæki og gert sig klára fyrir reykköfun.

Við aðkomu slökkviliðs var fólk í gluggum hússins sem þurfti …
Við aðkomu slökkviliðs var fólk í gluggum hússins sem þurfti að komast út. mbl.is/Kristinn Magnússon

Breytingar í kjölfar harmleiks

Húsnæðis- og mannvirkjastofnun skoðar nú allt ferlið í kjölfar brunans. Litið verði til mönnunar, viðbragðstíma og hvað var gert á vettvangi. Einnig verða lög og reglugerðir sem snúa að eldvörnum skoðuð, og hvort hægt sé að taka reynslu af þessum atburði inn í breytingar á lögum og reglugerðum.

„Ef maður horfir aftur í tímann eru allar breytingar sem tengjast þessu fagi miklar hörmungasögur. Það eru yfirleitt breytingar eftir að hörmungar eiga sér stað,“ segir Jón Viðar. „Kaupmannahöfn brann, Chicago brann, London brann oftar en einu sinni. Það endurspeglast í hvernig löggjöfin er.“

Í Bretlandi og Bandaríkjunum eru mun sterkari ákvæði í lögum og reglugerðum, svo slökkvilið getur sektað fyrir brot á reglugerðum varðandi eldvarnir. Þá segir Jón Viðar að horft sé til þess að verið er að brjóta öryggisatriði og aðilar séu sektaðir fyrir það brot, líkt og er gert í brotum á umferðarlögum.

Hann segir að ef farið er yfir á rauðu ljósi þurfi meira en bara segja fyrirgefðu. „Ef þú ferð yfir á rauðu ljósi færðu stóra sekt, sem gerir það að verkum að þú ert meðvitaðri og virðir það sem er í gangi,“ segir Jón Viðar. „Allt snýst þetta um að halda uppi öryggisstigi.

Maður veltir því fyrir sér hvort þurfi að stíga þau skref að beita svona aðgerðum. Það er vert að skoða það.“

Mörg brýn verkefni komu inn á borð slökkviliðsins á fimmtudaginn …
Mörg brýn verkefni komu inn á borð slökkviliðsins á fimmtudaginn og því voru dælubílarnir sem sendir voru á Bræðaraborgarstíg ekki fullmannaðir. mbl.is/Kristinn Magnússon

Fólk velur auðveldu leiðina

Jón Viðar segir slökkviliðið ekki verkfæralaust í að framfylgja brotum á eldvarnalögum, en að hans mati eru verkfærin of þung.

„Viðurlögin hafa ekki afgerandi fælingarmátt. Um leið og þú veist að þú færð refsingu fyrir brot, sem er þá sekt, ertu meðvitaðri um þá hluti, því það vill enginn lenda í sekt. Það kemur mjög skýrt fram í öllum lögum og reglugerðum að ef eigandi gerir miklar breytingar á húsi ber að sækja um breytingar á byggingarleyfi.“

Engu að síður segir Jón Viðar að algengt sé að fólk sæki ekki um leyfi fyrir breytingum sem hafi mögulega áhrif á eldvarnir í húsnæði. „Við upplifum það í okkar eftirliti að það er búið að gera stórvægilegar breytingar á húsnæði og jafnvel breyta notkun hússins.“

Þegar notkun hússins er breytt, til dæmis þegar íbúðarhúsi er breytt í gistiheimili, þarf að vera með betri og öflugri eldvarnir í húsnæðinu. „Fólk nennir ekki alltaf að sækja um leyfi fyrir þessum breytingum. Fólk er annaðhvort ekki meðvitað um hvernig það á að haga sér eða það er einfaldlega að fara einföldustu og stystu leiðina.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert