Erfitt að gera ráð fyrir svo stóru mögulegu hópsmiti

Atkvæðagreiðsla fyrir kjósendur í sóttkví fer fram inn í einhvers …
Atkvæðagreiðsla fyrir kjósendur í sóttkví fer fram inn í einhvers konar tjaldi. mbl.is/Íris Jóhannsdóttir

Þau 196 sem eru í sóttkví og á kosningaaldri og áttu eftir að greiða atkvæði þegar nýstárleg aðferð við atkvæðagreiðslu var tilkynnt nú síðdegis voru látin vita af því að þau hefðu möguleika á að nýta kosningarétt sinn, að sögn Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttur dómsmálaráðherra. 

„Við höfum unnið þetta ásamt almannavörnum og höfum auðvitað verið að skoða hve stór hópurinn er og hvar á landinu hann er til að geta komið þessu í kring núna í dag,“ segir Áslaug. 

Spurð hvort ekki hefði átt að vera búið að gera ráð fyrir því að fólk í sóttkví þyrfti að fá að kjósa með stuttum fyrirvara segir Áslaug: 

„Það var búið að gera ráð fyrir ýmsum atkvæðagreiðslum þeirra sem voru komnir í sóttkví og lá fyrir að væru í því en það var erfitt að gera ráð fyrir svo stóru mögulegu hópsmiti og þar af leiðandi svo mörgum í sóttkví daginn fyrir kjördag.“

Jóhann Gunnar Þórarinsson sýnir kjósendum blað með leiðbeiningum.
Jóhann Gunnar Þórarinsson sýnir kjósendum blað með leiðbeiningum. mbl.is/Íris Jóhannsdóttir

Þeir sem eru í sóttkví eiga þess kost að mæta í sérstakt tjald á bílastæði við húsnæði sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu í Hlíðasmára 1 í Kópavogi á milli klukkan 15 og 18:30. Atkvæðagreiðslan verður með þeim hætti að kjósandi kemur einn í bifreið sinni og keyrir inn í tjald sem verður á staðnum. 

Fordæmi fyrir því að kjósandi sýni kjörstjóra atkvæði sitt

Óheimilt er vegna sóttvarna að opna dyr eða glugga á bifreiðinni eða fara út úr henni. Það sem kjósendur þurfa að hafa með sér eru skilríki, blað þar sem kennitala kjósanda hefur verið skrifuð með stórum, læsilegum stöfum, og blað og penni þar sem kjósandi skrifar nafn þess sem hann vill kjósa og gera þannig kjörstjóra, sem veitir kjósanda aðstoð við atkvæðagreiðsluna, grein fyrir hvern hann vill kjósa.

Spurð hvort það samræmist kosningalögum að kjósendur þurfi að sýna kjörstjóra hvern þeir hyggist kjósa segir Áslaug:

„[Kjósandinn] sýnir aðstoðarmanni hvernig hann hyggst kjósa líkt og aðilar gera sem geta ekki sjálfir kosið með kjörseðli. Það eru ýmis dæmi þess, til dæmis kjósa einstaklingar með fötlun sem fá aðstoð kjörstjóra með þeim hætti.“

Bergþóra Sigmundsdóttir kjörstjóri hjá sýslumanni setur atkvæði kjósenda í kassann.
Bergþóra Sigmundsdóttir kjörstjóri hjá sýslumanni setur atkvæði kjósenda í kassann. mbl.is/Íris Jóhannsdóttir

Áslaug segir að þessi leið hafi verið talin vænleg með tilliti til bæði sóttvarnaráðstafana og laga. 

„Það þurfti einhvern veginn bæði að fara saman framkvæmd laganna og sóttvarnaráðstafanir því það lá ljóst fyrir að þessir aðilar mættu ekki snerta kjörgögnin og svo þurfti auðvitað að tryggja heilbrigði þeirra sem vinna við kosningarnar.“

mbl.is