Færri kjósa á kjördag en fyrir fjórum árum

Heldur færri hafa greitt atkvæði í forsetakosningum á kjördg en …
Heldur færri hafa greitt atkvæði í forsetakosningum á kjördg en í síðustu forsetakosningum. Aldrei hafa hins vegar fleiri greitt atkvæði utan kjörfundar. mbl.is/Íris Jóhannsdóttir

Kjörsókn er heldur minni það sem af er degi en á sama tíma í síðustu forsetakosningum. Skýrist það líklega að hluta til af því að aldrei hafa fleiri kosið utan kjörfundar áður eða rúmlega fimmtungur kjósenda.

Forsetakosningar fara fram í níunda sinn í lýðveldissögunni í dag og stendur valið á milli sitjandi forseta, Guðna Th. Jóhannessonar, og Guðmundar Franklíns Jónssonar. Þeir tóku báðir daginn snemma.

252.217 eru á kjörskrá, konur eru 126.550 en karlar eru heldur færri eða 125.667. Flesta kjósendur er að finna í Suðvesturkjördæmi eða 72.695 og fæstir eru þeir í Norðvesturkjördæmi eða 21.511. 

Frá kjörstað í Árbæjarskóla í dag.
Frá kjörstað í Árbæjarskóla í dag. mbl.is/Íris Jóhannsdóttir

Í öllum kjördæmum er kjörsókn minni en á sama tíma fyrir fjórum árum. Síðdegis höfðu 27,21% greitt atkvæði í Reykjavíkurkjördæmi norður og um 29% í Reykjavíkurkjördæmi suður, en þar var kjörsóknin um 36% fyrir fjórum árum.

30,5% höfðu greitt atkvæði í Suðvesturkjördæmi klukkan 17 en voru 41,1% á sama tíma í síðustu forsetakosningum. 

Í Norðvesturkjördæmi höfðu 33,5% greitt atkvæði klukkan 15 sem er 3-4% minna en fyrir fjórum árum.

Upplýsingar um kjörsókn liggja ekki fyrir frá Norðausturkjördæmi en á Akureyri höfðu 38,32% greitt atkvæði klukkan 17. 

25,9% höfðu greitt atkvæði í Suðurkjördæmi klukkan 15 og er það nokkru minna en á sama tíma í forsetakosningum 2016 en þá höfðu 30,56 % kosið alls.

Hér má sjá skiptingu kjósenda eftir kjördæmum: 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert