Hlakkar til næstu fjögurra ára

Guðni Th. Jóhannesson forseti og Eliza Reid forsetafrú eru á …
Guðni Th. Jóhannesson forseti og Eliza Reid forsetafrú eru á Grand Hótel og fylgjast með talningu í hópi góðra vina. mbl.is/Kristinn Magnússon

Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, segist fullur þakklætis og auðmýktar eftir að fyrstu tölur úr forsetakosningunum voru birtar.

Guðni og Eliza Reid, kona hans, eru á Grand Hótel í Reykjavík, þar sem þau fylgjast með framgangi kosninganna í góðra vina hópi en mbl.is náði tali af þeim þegar fyrstu tölur bárust.Samkvæmt fyrstu tölum úr Norðaustur- og Norðvesturkjördæmi hefur Guðni hlotið 91,2% atkvæða en Guðmundur Franklín Magnússon, mótframbjóðandi hans, 8,8%.

Guðni segir að verði úrslitin í samræmi við fyrstu tölur sé það vísbending um að þjóðin kunni vel við það sem hann og Eliza Reid, kona hans, hafa haft fram að færa síðustu fjögur ár. „Nú taka við önnur fjögur ár, ár alls kyns áskorana, tækifæra og viðfangsefna og við Eliza hlökkum til,“ segir Guðni.

Guðni segir að fyrstu tölur komi sér ekki á óvart. Þær séu í góðu samræmi við vísindalegar skoðanakannanir. „Skoðanakannanir eru ekki lokadómur um vilja kjósenda þegar að kjördegi er komið, en þær gefa sterkar vísbendingar,“ segir Guðni og bætir við að niðurstöðurnar séu að vísu algjörlega á skjön við sumar kannanir.

Ekki sóst eftir svo miklum stuðningi

Óhætt er að segja að Eliza Reid forsetafrú hafi sett mark sitt á embættistíð Guðna síðustu fjögur árin. Því er ekki úr vegi að spyrja þau bæði hvaða þýðingu það hafi að njóta svo mikils stuðnings.

„Þetta er mjög góð tilfinning að vita að fólkið í landinu er meira og minna ánægt með það sem við erum að reyna að gera á Bessastöðum,“ segir Eliza Reid. „Þess vegna er ég bara bjartsýn um hvernig við getum haldið áfram næstu fjögur ár,“ segir Eliza. Undir þetta tekur Guðni. „Fari svo sem horfir hef ég fengið afgerandi stuðning við endurkjör og það er í sjálfu sér fagnaðarefni þótt ég hafi ekki endilega sóst eftir því.“

Guðni og Guðmundur Franklín Jónsson, mótframbjóðandi hans.
Guðni og Guðmundur Franklín Jónsson, mótframbjóðandi hans. mbl.is/Kristinn Magnússon

Þarf ekki að kynna sig

Kosningabaráttan hefur um margt verið óvenjuleg enda veiran skæða sett strik í reikninginn. „Það hefur samt verið nóg að gera. Guðni hefur auðvitað verið upptekinn við að sinna embættisskyldum, en við höfum samt reynt að vera dugleg að fara um landið,“ segir Eliza.

„Kosningabaráttan markast auðvitað af því að hér höfum við verið að glíma við skæðan vágest og það hafa verið hömlur á mannamót,“ segir Guðni. Fleira valdi því þó að kosningabaráttan nú er ólík þeirri síðustu. „Þar að auki hlýtur mitt framboð að miðast við það að nú er ég búinn að gegna þessu embætti í fjögur ár og ég hef ekki þurft að kynna mig og mín verk. Ég þarf ekki að ganga fram á þennan völl og segja hver ég er og hvers vegna fólk eigi að geta séð mig fyrir sér í embætti forseta því ég er búinn að vera forseti í fjögur ár,“ segir Guðni og bætir við að af þeim sökum sé „yfirgnæfandi traustsyfirlýsing“ sem felist í tölunum þeim mun ánægjulegri.

Þegar þetta er skrifað eru fyrstu tölur komnar úr þremur kjördæmum og ljóst að nóg er framundan. Aðspurð segjast forsetahjónin þó ekki ætla að vaka eftir lokatölunum, sem sennilega birtast ekki fyrr en undir morgun. „Nei og ég geri ekki ráð fyrir að síðustu tölur liggi fyrir fyrr en einhvern tímann í morgunsárið og þá er nú skynsamlegra að fá góðan nætursvefn enda fátt eins mikilvægt,“ segir Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, á Grand Hótel.

Fréttin hefur verið uppfærð

 

 

mbl.is

Bloggað um fréttina