Kerfislega útilokuð frá mannsæmandi lífi

Tilkynning vegna eldsvoðans barst lögreglu klukkan 15.15 á fimmtudag. Þrjú …
Tilkynning vegna eldsvoðans barst lögreglu klukkan 15.15 á fimmtudag. Þrjú létust í brunanum og eru tveir einstaklingar enn á spítala, annar á gjörgæslu. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Við verðum öll að leggjast á eitt til að velta við hverjum steini og komast til botns í þessu“, segir í yfirlýsingu frá Pírötum vegna brunans á Bræðraborgarstíg. Píratar hafa kallað eftir gögnum og upplýsingum um málið „til að geta brugðist rétt við og sporna við að svona harmleikur endurtaki sig“.

„Hugur okkar er hjá aðstandendum og þeim sem eiga um sárt að binda á þessari sorgarstundu. Hjá fólkinu sem kom að brunanum og gerði kraftaverk á vettvangi. Hjá viðbragðsaðilum sem lögðu allt undir til að bjarga mannslífum.“

Í húsinu bjó að stórum hluta fólk af erlendum uppruna og taka Píratar aðstæður þeirra hérlendis sérstaklega fyrir í yfirlýsingu sinni. 

„Við ætlum að gera það sem í okkar valdi stendur til að tryggja mannréttindi og aðbúnað verkafólks óháð uppruna og fögnum orðum félagsmálaráðherra um úrbætur í málaflokknum. Þeim þarf að fylgja eftir af krafti.“

Vilja sérstaka úttekt á brunavörnum í leiguhúsnæði á höfuðborgarsvæðinu

Í yfirlýsingunni segir að allir ættu að geta lifað við grundvallarmannréttindi eins og öruggt heimili.

„Fólk af erlendum uppruna sem kemur hingað til að vinna og vantar því bakland og þekkingu á innviðunum okkar virðist vera kerfislega útilokað frá því að lifa við mannsæmandi aðstæður og öryggi og er þannig firrt sínum mannréttindum. Þetta getum við ekki liðið. Sem samfélag getum við ekki boðið upp á það að sum okkar sem höfum getuna og verkfærin til að krefjast réttar okkar fáum að lifa við betri lífsgæði en þau sem lifa án þessara forréttinda. Það er ekkert réttlæti í því,“ segir í yfirlýsingu Pírata sem telja mikilvægt að sérstaklega verði rýnt í brunavarnir á höfuðborgarsvæðinu. 

„Brotalöm virðist vera í kerfinu þegar kemur að umboði eftirlitsaðila til að fylgjast með öryggi og aðbúnaði í almennu leiguhúsnæði. Einnig virðist skorta á heimildir til að bregðast við þegar um óásættanlegar aðstæður er að ræða. Vonandi verður úttektin til þess að hægt verði að bæta úr þessum vanköntum. Svona lagað má aldrei gerast aftur.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert