Litlu mátti muna að farþegar slepptu skimun

Skimunarteymið var reiðubúið að taka á móti farþegunum en mannleg …
Skimunarteymið var reiðubúið að taka á móti farþegunum en mannleg mistök urðu til þess að landgönguhlið var opnað á röngum stað og farþegarnir gengu framhjá sýnatökusvæðinu. mbl.is/Íris Jóhannsdóttir

Mistök við opnun á landgönguhliði við komu flugvélar Wizz Air frá Katowice til Keflavíkur á sjöunda tímanum í kvöld urðu til þess að farþegar vélarinnar gengu framhjá svæðinu þar sem sýnataka fer fram. Snör handbrögð lögreglu komu í veg fyrir að farþegar kæmust í gegnum flugstöðina án þess að fara í skimun. 

Þetta staðfestir Sig­ur­geir Sig­munds­son­, yf­ir­lög­regluþjónn flug­stöðvar­deild­ar lög­regl­unn­ar á Suður­nesj­um, í samtali við mbl.is, en tæpara mátti vart standa þar sem farþegar sem fóru fyrst frá borði voru að fara í gegnum tollskoðun þegar þeim var snúið við í skimun. 94 farþegar voru um borð í vélinni. 

Sigurgeir segir að um mannleg mistök á vegum Isavia hafi verið að ræða og landgönguhliðið hafi verið opnað á röngum stað. 

Vélin lenti rúmum hálftíma á undan áætlun en Sigurgeir segir það ekki hafa skipt máli, skimunarteymið fylgist vel með komutímum og var reiðubúið að taka á móti farþegunum. Hann segir mestu máli skipta að það hafi tekist að smala öllum farþegunum til baka og að allir hafi farið í sýnatöku.

mbl.is