Lögin kveða ekki á um reit á kjörseðli

Frá kjörstað í dag.
Frá kjörstað í dag. mbl.is/Íris Jóhannsdóttir

Einhverjir kjósendur hafa í dag furðað sig á því að engan reit sé að finna fyrir aftan nöfn frambjóðenda á kjörseðlum. Það er þrátt fyrir allt alvanalegt, að sögn Erlu S. Árnadóttur, formanns kjörstjórnar Reykjavíkurkjördæmis norður, og í raun í samræmi við lög. 

„Þessi framkvæmd er bara samkvæmt því sem er mælt fyrir um í lögunum og þetta útlit hefur verið á kjörseðlinum í forsetakosningunum mjög lengi.“

Til þess að kjósa frambjóðanda með tryggum hætti á að krossa fyrir framan nafn forsetaframbjóðanda en það þýðir þó ekki að annars konar merkingar ógildi seðilinn endilega. 

Ekki hægt að segja af eða á

„Það veldur ekki sjálfkrafa ógildi seðilsins að krossinn sé ekki akkúrat fyrir framan,“ segir Erla, en getur það að krossinn sé fyrir aftan nafn frambjóðanda valdið því að seðillinn teljist ógildur? 

„Það er ekki hægt að segja af eða á. Það er auðvitað hver seðill metinn fyrir sig. Það eitt að krossinn sé til dæmis ólögulegur veitir ekki sjálfkrafa ógildi seðilsins. Hið sama gildir ef krossinn lendir aðeins fyrir ofan eða fyrir aftan. Þá er notað það sjónarmið að vilji kjósandans ráði.“

Erla segir að framkvæmd kosninganna hafi gengið vel hingað til og engar kvartanir hafi borist utan einnar formlegrar ábendingar sem laut að kjörseðlinum og gildi atkvæða.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert