„SÁÁ leggst af“

„Ég sé að það fólk vinni saman og nái betri …
„Ég sé að það fólk vinni saman og nái betri árangri heldur en þar sem einn maður stjórnar. Ég held að það sé framtíðin, sem er sá strúktúr sem komið hefur á SÁÁ með Valgerði,“ segir Sigurður Friðriksson fyrrverandi stjórnarmaður SÁÁ. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Á þriðjudag fer fram aðalfundur SÁÁ og þar með kjör á formanni en sitjandi formaður, Arnþór Jónsson, gefur ekki kost á sér. Þeir sem gefa kost á sér eru Einar Hermannsson, sem sat til skamms tíma í framkvæmdastjórn, og Þórarinn Tyrfingsson, fyrrverandi yfirlæknir á Vogi og fyrrverandi formaður samtakanna. Sigurður Friðriksson, fyrrverandi stjórnarmaður, segir að þegar Valgerður Rúnarsdóttir sagði af sér sem yfirlæknir á Vogi í vor hafi stór hluti starfsfólksins viljað hætta líka. Því hafi hún dregið uppsögn sína til baka.

Sigurður segir að það sama verði upp á teningnum og eftir afsögn Valgerðar ef Þórarinn ber sigur úr býtum í formannskjörinu. „Valgerður og meirihluti starfsfólksins munu hætta og SÁÁ leggst af. Það er svoleiðis í mínum huga,“ segir hann og hefur fengið það staðfest hjá fólki innan Vogs.

Mátti ekki láta taka mynd af sér

Sigurður fór í meðferð við áfengisfíkn í árslok 1999 og hefur ekki drukkið síðan. Sigurður kynntist Samtökum áhugamanna um áfengis- og vímuefnavandann, SÁÁ, eftir meðferðina. „Þar inni var fólk sem ég kannaðist við. Það þróast þannig að ég fer að starfa með félagsskap sem kallast Heiðursmenn,“ segir Sigurður en Heiðursmenn eru félagsskapur karla og kvenna sem hafa farið eða eiga fjölskyldumeðlimi sem hafa farið í meðferð. 

„Þegar ég byrjaði í Heiðursmönnum var mér sagt að passa mig á því að láta mig hverfa þegar fundurinn væri búinn. Láta aldrei taka mynd af mér. Láta aldrei sjást hver stjórnaði þessum fundum. Þetta voru skilaboð sem ég fékk um að Þórarinn [Tyrfingsson] sætti sig ekki við að neinn skyggði á hann,“ segir hann en á þessum tíma var Þórarinn bæði yfirlæknir á Vogi og formaður SÁÁ.

Breyttist til batnaðar með Valgerði

Árið 2017 ákvað Þórarinn, sökum aldurs, að stíga til hliðar. Í hans stað var Valgerður Rúnarsdóttir ráðin og var framkvæmdastjórnin einhuga um að ráða hana. „Hún hafði starfað við þetta lengi og var mjög vel liðin af öllum. Allir sem tala við Valgerði finna hlýjuna sem stafar frá henni. Þetta er góð manneskja. Ég fullyrði að starfsandinn á Vogi breyttist til batnaðar við það að Valgerður tók við. Spennan hvarf,“ segir Sigurður.

Þegar Þórarinn hafði verið hættur í um eitt ár setti hann upp leikrit, að sögn Sigurðar, í krafti fólks sem hann handvaldi í framkvæmdastjórn SÁÁ. „Það byrjar með því að hann vill fá skrifstofu á Vogi. Það er gengið svo hart að Valgerði að hún segir: „Á ég ekki bara að rýma skrifstofuna mína, viljið þið ekki að hann fari þangað?“ Þá stóð ég upp og sagði: „Nei, Valgerður, þú rýmir ekki skrifstofuna þína.““

Sigurður segir að þófið hafi haldið áfram þar til í mars þegar átta starfsmönnum á Vogi var sagt upp, flestum sálfræðingum, í hagræðingarskyni. Valgerður sagði af sér í kjölfarið, fannst stjórn SÁÁ skipta sér um of af faglegri starfsemi meðferðarstofnunarinnar, því allt var þetta gert án samráðs við hana.

Að sögn Sigurðar hefur Þórarinn ávallt haldið í gamlar aðferðir við meðferð á fíknivanda. Í stað þess að heilt teymi taki við einstaklingnum og haldi utan um hann sé horft til 40 ára gamalla aðferða. Þórarinn hafi séð sér leik á borði þegar fjárhagsvandi blasti við vegna kórónuveirufaraldursins til að losa sig við sálfræðinga og aðra fagaðila sem komið hafa inn í takt við nýja tíma.

„Þeir sögðu að þetta væri í sparnaðarskyni, sem var bara búið til si svona. Þeir voru búnir að reyna þetta lengi og notuðu tækifærið.“

Rökkuð niður fund eftir fund

Eftir að Valgerður dró uppsögn sína til baka vildi formaður SÁÁ gera við hana nýjan samning til eins árs. Því mótmælti Sigurður á framkvæmdastjórnarfundi. „Ég lamdi í borðið og sagði: „Það verður bara sami samningurinn og ekkert kjaftæði. Ef þið viljið frið á sjúkrahúsinu tekur gamli samningurinn gildi aftur.“ Og það varð. Hvað heldurðu að þeir geri þá? Þá taka þau sig saman, tvö og tvö, búin að ræða þetta fyrir fundinn, og búa til lygaþvælur um hana. Þau taka hana sín á milli og gjörsamlega ganga fram af henni. Þau rakka hana niður fund eftir fund eftir fund. Það voru vaktaskipti hjá þeim á þessum óþverraskap gegn Valgerði,“ segir hann.

„Því miður ganga nokkrir framkvæmdastjórnarmenn þessara erinda og láta nota sig í það óhæfuverk að reyna að svæla Valgerði út. Þetta finnst mér sorglegt og til vansa fyrir þetta framkvæmdastjórnarfólk.“ Þetta fólk fylgi þó ráðum og fyrirmælum Þórarins, að sögn Sigurðar. „Eftir að Þórarinn hætti hefur hann ekki getað sætt sig við að vera farinn. Hann er tilbúinn að leggja SÁÁ í rúst. Hann hefur stjórnað í gegnum Arnþór og þá sem hann hefur handvalið í framkvæmdastjórnina. Hann svífst einskis, og það á sama við um þá báða,“ segir Sigurður.

Sigurður styður Einar Hermannsson í kjöri til formanns SÁÁ. „Ég held að hann sé mjög góður í þetta starf. Ég held að hann muni valda þessu mjög vel.“

Hvernig viltu að starfsemi SÁÁ verði í framtíðinni?

„Að það sé faglært teymi sem samanstendur af fólki sem er búið að læra til áfengis- og fíkniefnavarna. Ég sé að það fólk vinnur saman og nær betri árangri en þar sem einn maður stjórnar. Ég held að það sé framtíðin, sem er sá strúktúr sem komið hefur á SÁÁ með Valgerði. Um þetta snúast deilurnar. Viljum við stöðnun og ofríki eða viljum við vera opin fyrir kröfum samtímans og laga starfsemina og taka tillit til gagnrýni? Gagnrýni er nauðsynleg og það er hættulegt ef við teljum alltaf að hún sé sett fram af illum hvötum. Ég treysti þessu fagfólki sem þarna vinnur með Valgerði, Ingunni [Hansdóttur yfirsálfræðingi] og Þóru [Björnsdóttur hjúkrunarforstjóra] 100%.

Þórarinn hefur margt gott gert í gegnum tíðina, en tími hans er liðinn. Þórarinn ákvað sjálfur að hætta. Ég hef ekki trú á því að endurkoma geti átt sér stað. Það tókst allavega ekki hjá Napóleon Bonaparte.“

Sunnudagsblaðið leitaði viðbragða Þórarins Tyrfingssonar við ásökunum um ógnarstjórn og afskipti af starfsemi framkvæmdastjórnar SÁÁ í fjölmiðlum síðustu misseri sem eiga beina skírskotun í viðtalið hér við Sigurð. „Ég hef ekki verið í framkvæmdastjórn síðan 2011,“ sagði Þórarinn. „Ég hef ekki haft starfsaðstöðu á Sjúkrahúsinu Vogi eða öðrum starfsstöðvum SÁÁ í þrjú ár og ég hætti að ganga til vinnu þar fyrir þremur árum. Ég hef unnið við ársskýrslu og gagnagrunn SÁÁ og gaf út rit í september. Það er allt og sumt.“ 

Viðtalið við Sigurð má finna í heild sinni í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins.

Sigurður Friðriksson ber Þórarinn Tyrfingsson, annan formannsframbjóðanda SÁÁ, þungum sökum …
Sigurður Friðriksson ber Þórarinn Tyrfingsson, annan formannsframbjóðanda SÁÁ, þungum sökum í viðtali við Sunnudagsblaðið. mbl.is/Kristinn Magnússon
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert