„Þetta má ekki endurtaka sig“

Í samtali við mbl.is segir Jón Þór að fundað verður …
Í samtali við mbl.is segir Jón Þór að fundað verður um málið í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd á mánudag. mbl.is/Árni Sæberg

Formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, Jón Þór Ólafsson, hefur rætt við dómsmálaráðherra vegna þeirra sem ekki geta kosið í forsetakosningunum í dag vegna COVID-19-sóttkvíar.

„Sem formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, sem er ábyrgur fyrir eftirliti með framkvæmd kosningalaga, hef ég haft samband við dómsmálaráðherra sem svarar og vill lausnir. Nánast öll nefndin svarar og allir sem svara vilja að kosningarétturinn sé í lagi,“ segir í tilkynningu frá Jóni Þór vegna málsins.

Í samtali við mbl.is segir Jón Þór að fundað verði um málið í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd á mánudag.

Þá segir Jón Þór að yfirkjörstjórn í Reykjavík hafi vísað á sýslumanninn á höfuðborgarsvæðinu, sem hafi lofað að láta ná í sig í gærkvöld vegna málsins en við það hafi ekki verið staðið. „Sýslumaðurinn í Reykjavík, sem yfirkjörstjórn vísaði á og er ábyrgur fyrir að framfylgja kosningarétti fólks og þarf að bera ábyrgð á sínu starfi, hefur ekki svarað. Þetta má ekki endurtaka sig.“

mbl.is

Bloggað um fréttina