Búið að yfirfara verkferla á Keflavíkurflugvelli

Allir farþegar fara nú í gegnum svokallað non-Schengen-hlið vegna skimunarinnar.
Allir farþegar fara nú í gegnum svokallað non-Schengen-hlið vegna skimunarinnar. mbl.is/Íris Jóhannsdóttir

Gleymst hafði að breyta landgönguhliði á Keflavíkurflugvelli þegar 94 farþegar sem voru að koma frá Katowice í Póllandi með flugvél Wizz Air í gærkvöldi komust næstum í gegnum flugstöðina án þess að fara í skimun.

Þetta staðfestir Guðjón Helgason, upplýsingafulltrúi Isavia, í samtali við mbl.is. Búið er að yfirfara alla verkferla til að koma í veg fyrir að slíkt komi fyrir aftur.

„Þetta er það sem kallast dual-hlið og virkar bæði fyrir Schengen og non-Schengen og það sem gerist er að skömmu áður hafði verið Schengen-brottför og svo kemur þessi vél og hliðinu er ekki breytt svo það beinir fólki áfram inn á Schengen-svæði,“ segir Guðjón, en vegna skimunarinnar er nú öllum farþegum beint í gegnum svokallað non-Schengen-hlið.

Hliðunum er breytt handvirkt og gleymdist það í gær. „Það er búið að yfirfara alla verkferla svo þetta gerist ekki aftur. Svo erum við um nokkurt skeið búin að vera að vinna í breytingu á þessu kerfi þannig að það verði sjálfvirkt og sú vinna er komin mjög langt og búnaður kominn til þess,“ segir Guðjón. „Þá verður þetta fullkomlega sjálfvirkt.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert