Hvenær kemur strætó?

Hörður Lárusson hefur hannað nýtt upplýsingakerfi fyrir Strætó sem mun …
Hörður Lárusson hefur hannað nýtt upplýsingakerfi fyrir Strætó sem mun koma sér vel þegar Borgarlínan verður að veruleika. mbl.is/Ásdís

Þegar Hörður útskrifaðist úr grafískri hönnun úr Listaháskólanum árið 2006 skilaði hann lokaverkefni sem sneri að útlitshönnun upplýsingakerfis fyrir strætókerfi. Nú fjórtán árum síðar fékk Hörður tækifæri til þess að hanna slíkt upplýsingakerfi fyrir alvöru.

„Útskriftarverkefnið mitt var aldrei notað, enda bara skólaverkefni. Þá voru stafrænir skjáir heldur ekkert inni í myndinni. Í verkefninu fyrir Strætó vann ég svipað og í því gamla verkefni,“ segir Hörður, sem í dag er grafískur hönnuður og einn eiganda Kolofon hönnunarstofu.

„Ég gróf upp gamla verkefnið og þar eru nokkrir hlutir sem ég endurnýtti en það er að sjálfsögðu margt breytt með tækninni. Mamma er listræn og þaðan fæ ég hönnunarhæfileikana og pabbi er rafmagnsverkfræðingur og frá honum fæ ég rökhugsunina. Það er fullkomin blanda í svona verkefni,“ segir hann og brosir.

Hörður Lárusson hefur hannað nýtt upplýsingakerfi fyrir Strætó sem mun …
Hörður Lárusson hefur hannað nýtt upplýsingakerfi fyrir Strætó sem mun koma sér vel þegar Borgarlínan verður að veruleika.

Úti á stoppustöð

Beðinn um að útskýra nýja verkefnið segir Hörður: „Verkefnið snýr að allri upplýsingagjöf um leiðakerfi strætó. Þetta tengist ekki auglýsingum þeirra eða ásýnd heldur er þetta frekar upplýsingaverkefni sem sýnir fólki hvernig það kemst á milli staða með strætó. Þetta er sett fram mjög myndrænt,“ segir hann.

Á myndinni má sjá nýja útlitið sem Hörður hefur hannað …
Á myndinni má sjá nýja útlitið sem Hörður hefur hannað fyrir upplýsingaramma strætóskýlanna.

Í dag er hægt að hlaða niður strætóappi en Hörður segir það ekki endilega nýtast þegar fólk er úti á stoppistöð.

„Appið nýtist þér þegar þú ert heima hjá þér og ert að reyna að ákveða í hvaða strætó þú ætlar. En þegar þú ert kominn á stoppistöðina viltu kannski öðruvísi upplýsingar, til dæmis hvað er langt í strætóinn. Slíkar upplýsingar eru nú á öllum stafrænum strætóskýlum. Þar er niðurtalning á skjá og sýnir hvað sé langt í strætó. Það er hluti af okkar verkefni og glænýtt. Þetta er í raun eins og fólk sér á stórum lestarstöðvum erlendis,“ segir hann og nefnir að ekki sé nóg fyrir viðskiptavini að til sé gott app.

Hörður segir að upplýsingar á öllum strætóskýlum borgarinnar verði innan skamms mun skilvirkari en áður. Þar kemur til með að vera bæði stafrænt flettispjald og prentuð mynd.
„Við breyttum þessu algjörlega, og er þetta komið upp í strætóskýlum í Hafnarfirði. Sumarið og haustið verður notað til þess að uppfæra restina af leiðakerfinu.“

Framtíðin er komin

Verkefnið er samtengt vinnu sem stofan hefur unnið fyrir borgarlínuna.

„Þegar borgarlínan er komin verður þetta auðvitað bara eitt samgöngukerfi, strætó og borgarlínan. Við vorum byrjuð á að búa til útlit fyrir borgarlínuna þegar Strætó réð okkur til verksins. Þá var auðvitað eðlilegast að þróa þetta með Strætó núna og þegar borgarlínan kemur verður kerfið tilbúið. Það sem fór upp í Hafnarfirði núna fyrir stuttu er nýja útlitið sem kemur svo seinna til með að tengjast borgarlínunni. Heildarupplýsingagjöf strætó, og seinna borgarlínunnar, verður einmitt svona. Þetta er alveg nýtt útlit og ný hugsun að öllu leyti,“ segir hann og bendir á að í Bókasafni Kópavogs megi nú sjá sýningu sem gengur út á að sýna hvað borgarlínan er.

„Á þeirri sýningu erum við að sýna framtíðina og hvernig þetta verður, en hluti af þeirri framtíð er nú kominn inn í strætó,“ segir hann og bætir við að sýningin sé opin til 3. ágúst.

Lengra viðtal er við Hörð í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins um helgina.

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert