Malbikið „nánast eins og skautasvell“

Bifhjól og húsbíll skullu saman sunnan Hvalfjarðarganga á Kjalarnesi í …
Bifhjól og húsbíll skullu saman sunnan Hvalfjarðarganga á Kjalarnesi í dag. Annað bifhjól hafnaði utan vegar. mbl.is/Íris Jóhannsdóttir

„Malbikið er nánast eins og skautasvell og það er enginn grunur um ógætilegan akstur eða hraðakstur,“ segir Ásgeir Þór Ásgeirsson, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, um aðstæður á Kjalarnesi þar sem alvarlegt umferðarslys varð á fjórða tímanum í dag. 

Slysið varð með þeim hætti að bifhjól lenti framan á húsbíl sem kom á móti og annað bifhjól hafnaði utan vegar. Ökumaður og farþegi voru á fyrra bifhjólinu en aðeins ökumaður á því sem lenti út fyrir veg. Einn var í húsbílnum. Þrír voru fluttir á slysadeild til aðhlynningar en ekki er hægt að greina frá líðan þeirra að svo stöddu. 

Skjáskot/Twitter

Viðvörun fjarlægð af Twitter Vegagerðarinnar

Vegagerðin varaði við vegkaflanum frá Hvalfjarðargöngum og inn í Kollafjörð fyrr í dag vegna nýs slitlags og því getur vegurinn verið varasamur í bleytu. Færslan þar sem varað er við aðstæðum á veginum virðist nú hafa verið fjarlægð af twittersíðu Vegagerðinnar.

Uppfært: G. Pétur Matthíasson, upplýsingafulltrúi Vegagerðarinnar, segist aðspurður telja að færslan hafi sjálfkrafa verið tekin af Twitter. Þann háttinn hafi Vegagerðin gjarnan á til að tilkynningar úreldist ekki á vefnum.

Nýtt slitlag er á vegkaflanum þar sem slysið varð síðdegis …
Nýtt slitlag er á vegkaflanum þar sem slysið varð síðdegis í dag. mbl.is/Íris Jóhannsdóttir

Þá hafa mbl.is borist ábendingar frá ökumönnum sem höfðu sérstaklega samband við lögreglu og Vegagerðina til að vara við aðstæðum á veginum. 

„Vegagerðin er veghaldari og ber ábyrgð á veginum,“ segir Ásgeir. Lögreglan hefur fengið ábendingar um að merkt sé að um sé að ræða nýtt slitlag á veginum, en einnig að það sé illa merkt.

Nýtt slitlag er á veginum og hafði Vegagerðin varað við …
Nýtt slitlag er á veginum og hafði Vegagerðin varað við aðstæðum á veginum fyrr í dag. mbl.is/Íris Jóhannsdóttir

Rannsókn beinist að aðstæðum á veginum

Vinna á vettvangi stendur enn yfir og mun rannsókn lögreglu m.a. beinast að aðstæðum á veginum þegar slysið varð.

Lokað hefur verið fyrir umferð um Hvalfjarðargöngin frá því að slysið varð en fram kemur í tilkynningu frá lögreglu að verið sé að minnka lokanir og verður opnað fyrir umferð á næstunni. Þá hefur fjöldahjálparstöð sem var opnuð í Klébergsskóla eftir slysið verið lokað en þangað gátu þeir sem vitni urðu að slysinu leitað sálræns stuðnings.  

Frá vettvangi slyssins síðdegis.
Frá vettvangi slyssins síðdegis. mbl.is/Íris Jóhannsdóttir
mbl.is