„Algjörlega óboðlegt“ að dómþolar bíði í mörg ár

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra kynnti aðgerðirnar á blaðamannafundi í fangelsinu …
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra kynnti aðgerðirnar á blaðamannafundi í fangelsinu á Hólmsheiði í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra telur löngu tímabært að ráðast í aðgerðir til að stytta boðunarlista til afplánunar refsinga hér á landi. Í dag er meðalbiðtími, frá því að dómur fellur þangað til afplánun hefst, 17 mánuðir – dómsmálaráðherra segir ástandið ekki boðlegt og kynnti í dag aðgerðir sem eiga að stytta boðunarlista og biðtíma til afplánunar.

„Það er algjörlega óboðlegt að dómþolar bíði stundum í mörg ár eftir því að geta afplánað dóm sinn. Það minnkar varnaðaráhrif refsinga, refsingar fyrnast og síðast en ekki síst þá er það mjög þungbært fyrir aðila að þurfa bíða svona lengi,“ segir Áslaug í samtali við mbl.is um aðgerðirnar sem hún kynnti á blaðamannafundi í fangelsinu á Hólmsheiði fyrr í dag.

Þróunin síðustu ár hefur ekki verið góð

Dómsmálaráðherra skipaði starfshóp þann 9. mars sl. sem hafði það hlutverk að móta tillögur til úrbóta sem stytta eiga boðunarlista til afplánunar refsinga, koma í veg fyrir fyrningu refsinga og tryggja að sérstök og almenn varnaðaráhrif refsinga séu virk. Starfshópurinn skilaði skýrslu þar sem sjö tillögur voru lagðar fram og ákvað dómsmálaráðherra að ráðast í þær allar.

Í máli dómsmálaráðherra í dag kom fram að þróunin síðustu ár hefur verið á þá leið að biðtími eftir afplánun er sífellt að lengjast og sífellt fleiri bætast á biðlista. Þá hefur fyrningum fjölgað talsvert síðustu ár. En hvað veldur?

„Refsingar hafa lengst og fleiri hafa fengið óskilorðsbundnar refsingar. Gæsluvarðhaldsföngum hefur fjölgað og nýtingin í fangelsunum hefur ekki verið nægilega góð,“ segir Áslaug og bætir við: „Með þessum aðgerðum ættum við að geta fækkað fyrningum allverulega og vonandi alfarið — enda á kerfið okkar ekki að vera þannig að við lendum í því að refsingar fyrnist.“

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra og Páll Winkel fangelsismálastjóri að loknum …
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra og Páll Winkel fangelsismálastjóri að loknum fundi. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Vinnan fer strax af stað í ráðuneytinu

Hún segir aðgerðirnar sem ráðist verður í umfangsmiklar – um sé að ræða einskiptisaðgerðir, aðgerðir þar sem farið verður að fordæmi annarra Norðurlandaþjóða og svo sé einnig um verulegar aðgerðir að ræða, til að mynda með því að rýmka heimild til að fullnusta refsidóma með samfélagsþjónustu og að rýmka heimildir til að ljúka málum með sáttamiðlun.

Ein tillagan sem var samþykkt er að veita þeim skilorðsbundna náðun sem búnir eru að vera lengur en þrjú ár á boðunarlista, hafa verið dæmdir fyrir minni háttar brot og eiga ekki ólokin mál í refsivörslukerfinu.

„Þeir þurfa þá ekki að afplána sinn dóm í fangelsi en verða enn á skilorði og þetta gerir það að verkum að refsingar þeirra munu ekki fyrnast. Þetta er hugsað fyrir minni háttar brot þar sem aðilar hafa beðið lengur en þrjú ár. Það má ekki gleyma því að þessi bið er auðvitað ákveðin viðbótarrefsing,“ útskýrir Áslaug.

Hún vonast til að aðgerðirnar verði komnar að fullu í framkvæmd snemma á næsta ári. „Fyrir utan sáttamiðlunartillöguna þar sem það mun taka lengri tíma að breyta kerfinu í þá átt að það verði virkt úrræði. Það þarf að fara í allnokkrar lagabreytingar er varða samfélagsþjónustu, reynslulausn og sáttamiðlun og sú vinna fer strax í gang í ráðuneytinu.“

Þakkaði ráðherra fyrir ákveðni og áræði

Páll Winkel fangelsismálastjóri var einnig á fundinum og tók til máls. Hann þakkaði ráðherra innilega fyrir ákveðni, áræði og frumkvæði í þessum málaflokki.

„Það er búið að blasa við í tíu ár að minnsta kosti að fullnustukerfið annar ekki dæmdum refsingum. Þegar refsingar þyngjast um næstum 100% þá þarf að bregðast við, og það er búið að taka langan tíma. Það er búið að vinna þetta lengi en þetta er lokahnykkurinn sem þurfti að klára,“ sagði Páll í samtali við mbl.is eftir fundinn.

„Það tekur væntanlega tíma að vinda ofan af biðtímanum en ef við erum með fjárheimildir til þess að reka fangelsin á fullum afköstum þá tel ég að það geti gerst nokkuð hratt,“ bætti hann við.

Páll Winkel þakkaði Áslaugu Örnu innilega fyrir áræðni, ákveðni og …
Páll Winkel þakkaði Áslaugu Örnu innilega fyrir áræðni, ákveðni og frumkvæði í málaflokknum. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert