Bárust ábendingar fyrir slysið

Nýtt slitlag var á veginum þar sem slysið varð og …
Nýtt slitlag var á veginum þar sem slysið varð og vegurinn var glerháll að sögn vegfarenda og lögreglu. mbl.is/Íris Jóhannsdóttir

Lögreglu og Vegagerð bárust fjölmargar ábendingar í gær um að akstursaðstæður á vegkafla á Vesturlandsvegi á Kjalarnesi væru varasamar. Upplýsingafulltrúi Vegagerðarinnar staðfestir í samtali við mbl.is að þrjú símtöl, að minnsta kosti, bárust Vegagerðinni áður en banaslys varð á umræddum vegkafla skömmu eftir klukkan 15 í gær. 

Lög­regl­an á höfuðborg­ar­svæðinu og rann­sókn­ar­nefnd sam­göngu­slysa rann­saka til­drög slyss­ins. Aðstæður veg­kafl­ans eru sér­stak­lega til skoðunar en nýtt slitlag var á veg­in­um þar sem slysið varð og sagði Ásgeir Þór Ásgeirs­son, yf­ir­lög­regluþjónn hjá lög­regl­unni á höfuðborg­ar­svæðinu, í sam­tali við mbl.is í gærkvöld að mal­bikið hefði verið „nán­ast eins og skauta­svell“.

„Bíllinn dansaði á veginum“

Guðjón Hilmarsson er í hópi þeirra sem höfðu samband við lögreglu og Vegagerðina í gær vegna aðstæðna á vegkaflanum. Eiginkona Guðjóns var farþegi í bíl á svæðinu. „Bíllinn dansaði hjá þeim á veginum,“ segir Guðjón, sem ákvað að taka málin í sínar hendur og hafa samband við lögreglu. Þar var honum bent á að hringja í neyðarsíma Vegagerðarinnar. Þetta var klukkan 14:30, um 45 mínútum áður en slysið varð. „Ég vildi koma í veg fyrir slys. En það kom ekkert út úr þessum samtölum,“ segir Guðjón. 

mbl.is hefur fengið fjölmargar ábendingar frá vegfarendum sem óku vegkaflann í gær og líkja aðstæðum við slæma vetrarfærð líkt og um fljúgandi hálku hafi verið að ræða.  

Lögreglu og Vegagerð bárust fjölmargar ábendingar í gær um að …
Lögreglu og Vegagerð bárust fjölmargar ábendingar í gær um að akstursaðstæður á vegkafla á Vesturlandsvegi á Kjalarnesi væru varasamar. Banaslys varð á kaflanum síðdegis í gær. mbl.is/Íris Jóhannsdóttir

„Ég og fjölskylda mín vorum að koma í gegnum göngin þegar við fundum fyrir því að maðurinn minn var farinn að missa stjórn á bílnum. Við náðum að stöðva bílinn og skoðuðum hann í bak og fyrir en allt virtist í lagi. Síðan sáum við að það var nýmalbikað, mikil rigning ásamt hita. Þegar við tókum af stað á ný spóluðum við áfram og þetta var eins og að keyra í fljúgandi hálku. Um leið og við vorum komin á gamalt malbik hætti stjórnleysið og akstur varð eðlilegur,“ segir viðmælandi sem kýs að koma ekki fram undir nafni. Viðkomandi hafði samband við Vegagerðina og fékk þá þær upplýsingar að hún væri áttunda manneskjan sem hringdi á jafn mörgum mínútum. 

Eftir hádegi í dag mun Vegagerðin funda með tveimur verktökum sem sáu um malbikunarframkvæmdir á vegkaflanum sem lauk fyrir helgi. Þá hafa Bif­hjóla­sam­tök lýðveld­is­ins, Snigl­ar, boðað til mót­mæla við hús­næði Vega­gerðar­inn­ar í Borg­ar­túni á morgun í kjöl­far um­ferðarslyssins. 

Frétt mbl.is

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert