Borgarlínan verður að veruleika

Borgarlínan mun liggja frá Lækjartorgi, að Háskóla Íslands, í gegnum …
Borgarlínan mun liggja frá Lækjartorgi, að Háskóla Íslands, í gegnum Vatnsmýrina og yfir brú yfir Fossvog en Hamraborg er endastöð.

Í kvöld var frumvarp til laga sem snýr að stofnun opinbers hlutafélags um uppbyggingu samgönguinnviða á höfuðborgarsvæðinu samþykkt. Frumvarpið heimilar samgönguráðherra að stofna hlutafélag með sveitarfélögunum á höfuðborgarsvæðinu til þess að byggja upp svokallaða borgarlínu.

Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfisráðherra fagnaði þessu á Facebook í kvöld. Hann sagði að fagna bæri þessu sérstaklega „enda mjög mikilvægt mál sem eykur fjölbreytni í samgöngum á höfuðborgarsvæðinu og er stórt loftslagsmál“, skrifaði Guðmundur. 

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, þingmaður Miðflokksins, var ekki á sama máli og gerði sérstaklega grein fyrir atkvæði sínu með eftirfarandi hætti:

„Ég tel að borgarlínan sé stórvarasamt mál og mun gera nánar grein fyrir því á næstu dögum utan við þennan sal.“

Samþykktu að leggja gjald á nokkrar einnota plastvörur

Tvö frumvörp Guðmundar voru einnig samþykkt á Alþingi í kvöld. 

„Annað málið er breytingar á loftslagslögum þar sem alþjóðlegar skuldbindingar Íslands gagnvart Parísarsamkomulaginu hafa nú verið lögfestar,“ skrifar Guðmundur.

„Hitt málið varðar plastmengun en Alþingi hefur nú samþykkt að banna markaðssetningu þeirrar einnota plastvöru sem mest finnst af á ströndum í Evrópu og til eru aðrar vörur í staðinn fyrir. Einnig kveða lögin á um að lagt verði gjald á nokkrar aðrar algengar einnota plastvörur.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert