Brýnt að fræða börn um mörk í samskiptum

Arnrún ásamt verðlaunabikar sem leikskólinn Brákarborg fékk vegna verkefnisins um …
Arnrún ásamt verðlaunabikar sem leikskólinn Brákarborg fékk vegna verkefnisins um lausnahringinn. Verðlaunin voru að vísu aðeins í formi viðurkenningarskjals, sem leikskólabörnunum fannst fúlt og því var keyptur bikar. Ljósmynd/Aðsend

Mikilvægt er að fræða börn frá unga aldri um að þau geti sett sér mörk í samskiptum við aðra og verði sömuleiðis að virða mörk annarra. Þetta segir Arnrún Magnúsdóttir leikskólakennari en hún hefur um tuttugu ára skeið unnið að kennsluefni fyrir starfsfólk leikskóla, yngsta stigs grunnskóla og frístundaheimila sem veitir því verkfæri til að ræða mörk og virðingu í samskiptum, kynferðisofbeldi og aðrar birtingarmyndir ofbeldis við börn.

Hún segir skorta á kennslu fyrir börn um þessi brýnu málefni sem mikilvægt sé að fræða þau um. „Við höfum frætt börn um umferðina og hvernig á að fara yfir götur frá þriggja ára aldri síðan 1968 en við höfum ekki frætt þau um eigin líkama,“ segir Arnrún.

Arnrún segist hafa brunnið fyrir starfinu um langa hríð. „Það kemur til í gegnum bernskuna mína, en besta vinkona mín trúði mér fyrir því þegar við vorum níu ára að hún hefði verið misnotuð,“ segir hún.

Leikskólabörn eru meðvitaðari en marft fullorðið fólk gerir sér grein …
Leikskólabörn eru meðvitaðari en marft fullorðið fólk gerir sér grein fyrir, segir Arnrún. Hún segir einstök tækifæri felast í fyrsta skólastiginu. Ljósmynd/Aðsend

Námsefnið hefur einkum verið prófað í leikskólanum Brákarborg, þar sem hún starfar, en einnig í leikskólum á Akureyri en Arnrún kenndi leikskólakennarafræði um tveggja ára skeið í Háskólanum á Akureyri. „Þetta byggist á kenningunni um jákvæðan aga. Í sameiningu bjuggu börnin til lausnahring og komu til dæmis með hugmyndir um að geta sagt stopp og beðist afsökunar,“ segir Arnrún. Námsefnið er fellt inn í hefðbundið starf skólanna, sögur lesnar og lög sungin sem tengjast viðfangsefninu. „Við fengum til dæmis börnin til að velta fyrir sér hvaða ævintýri fjalla um það að segja stopp.“

Hún segir hlutverk foreldra sömuleiðis stórt. Þeir þurfi að tileinka sér virðingu fyrir börnum sínum og vera fyrirmyndir er kemur að virðingu fyrir mörkum annarra. Ef börn segist til dæmis ekki vilja knús þá þurfi að virða það.

Verða að geta tekið á ofbeldi

Arnrún telur skorta á fagmenntun á háskólastigi í umræddum málefnum, og því hvernig eigi að taka á ofbeldi. Til séu námskeið á háskólastigi en þau séu ekki skyldunámskeið. „Það eru bara félagsráðgjafar sem eru skikkaðir í ákveðin námskeið sem snúa að þessum pakka. Annars er gríðarlega algengt að fólk velji bara þau námskeið sem það treystir sér til,“ segir Arnrún. „Fyrir vikið er fólkið úti á ökrunum hrætt við að taka umræðuna og hvernig á að taka á ofbeldi og heldur jafnvel að það sé verið að hvetja börn til að snerta á sér kynfærin.“ Hún segir mikilvægt að hver og einn skóli hafi aðgerðaáætlun um hvernig á að bregðast við þegar ofbeldi kemur upp. Foreldrar og starfsfólk þurfi að vera vakandi.

Fyrir skemmstu var samþykkt á Alþingi þingsályktunartillaga um forvarnir gegn kynferðislegu og kynbundnu ofbeldi og áreitni, ásamt aðgerðaáætlun fyrir árin 2021-2025. Arnrún sat í starfshópi sem vann aðgerðaáætlunina og bindur vonir við að námsefni hennar verði áður en langt um líður kennt í öllum leikskólum.

„Þetta er gríðarlegur sigur og mjög jákvætt. Það er oft horft á leikskóla sem geymslustofnun vegna þess að námið er ekki skylda, en leikskólinn er engu að síður fyrsta skólastigið og þar fer fram dýrmæt menntun og einstök tækifæri til að ná til barna. Ég held að fullorðnir átti sig ekki alltaf á því hvað leikskólabörn eru meðvituð í dag.“

mbl.is