Dæmd í fangelsi fyrir fíkniefnainnflutning

Dómurinn var kveðinn upp í Héraðsdómi Reykjaness.
Dómurinn var kveðinn upp í Héraðsdómi Reykjaness. mbl.is/Ómar Óskarsson

Héraðsdómur Reykjaness dæmdi í dag tvo karlmenn, annan á þrítugsaldri og hinn á fertugsaldri, ásamt konu á þrítugsaldri til alls tveggja ára fangelsisvistar og greiðslu alls sakarkostnaðar, um þriggja milljóna alls, fyrir innflutning á kókaíni og hassi frá Alicante á Spáni. 

Brotin frömdu þremenningarnir í mars 2018. Konunni er gefið að sök að hafa flutt inn 155,54 grömm af kókaíni innvortis og karlmönnunum að hafa í sameiningu staðið að skipulagningu og innflutningi á samtals 318,47 grömmum af kókaíni og tæpum fimm kílóum af hassi. Öll fíkniefnin voru ætluð til söludreifingar hér á landi í ágóðaskyni en kókaínið flutti fólkið innvortis. Hassið fannst á botni ferðatösku eldri mannsins.

Þá er karlmönnunum einnig gefið að sök að hafa fengið konuna til að flytja fíkniefnin inn. Þeir neituðu því báðir og neituðu því raunar að hafa skipulagt flutninginn í sameiningu þótt framburður þeirra hafi verið breytilegur. Þeir voru ekki dæmdir fyrir þann hluta málsins, einungis fyrir innflutninginn.

Þá játuðu þremenningarnir að hafa flutt efnin inn en konan hélt því fram að þeir hefðu beðið sig að flytja efnin til Íslands.

Vildi lán fyrir flugmiðum

Konan var í sambandi með eldri manninum sem sagðist hafa óskað eftir því við yngri manninn að hann lánaði parinu fyrir flugi heim til Íslands frá Alicante en hann „hefði verið á síðasta  séns að komast til Íslands í endurmat á heilsu sinni vegna slyss“, að því er hann greinir frá sjálfur í dómnum. Konan sagðist ekki hafa haft efni á því að komast heim og því nýtt tækifærið. Hún sagðist ekki muna hvort hún hefði átt að fá greiðslu fyrir flutninginn en hún var í fíkniefnaneyslu á þeim tíma sem brotin voru framin.

Yngri maðurinn greiddi fyrir flugfargjald þeirra allra en daginn áður en vélin átti að fara birtist hann með fíkniefni í íbúð parsins. Fíkniefnin fundust við leit í Leifsstöð.

Maðurinn hafi nefbrotið konuna

Í dómnum kemur fram að staða konunnar á Spáni hafi verið þröng. Hún lýsir því í dómnum að eldri maðurinn hafi nefbrotið hana á Spáni og hann játar að hafa ráðist á hana.

Hún lauk meðferð í apríl síðastliðnum sem gekk vel. Þá eignaðist hún barn nýverið, að því er fram kemur í dómnum. Í maí 2019 gekkst hún undir lögreglustjórasátt vegna aksturs undir áhrifum ávana- og fíkniefna en á annars ekki brotaferil að baki. Konan var dæmd til fjögurra mánaða skilorðsbundinnar refsingar og til greiðslu um milljónar vegna sakarkostnaðar. 

Eldri maðurinn á að baki sakaferil sem nær aftur til ársins 2009. Hann hlaut tveggja ára dóm í júlí í fyrra fyrir vörslu fíkniefna og umferðarlagabrot. Hann var dæmdur í tíu mánaða fangelsi fyrir málið sem um ræðir hér og til greiðslu þóknunar skipaðs verjanda síns, alls rúmar 700.000 krónur.

Yngri maðurinn á að baki sakaferil sem nær aftur til ársins 2012. Hann var dæmdur til níu mánaða fangelsisvistar í júlí síðastliðnum fyrir vörslu fíkniefna og umferðarlagabrot. Hann var dæmdur til tíu mánaða fangelsisvistar vegna umrædds innflutnings og er honum einnig gert að greiða þóknun verjenda sinna, alls rúmar 700.000 krónur.

Mönnunum er einnig gert að greiða sameiginlega rúmar 400.000 krónur í annan sakarkostnað. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert