Einungis 3% hjúkrunarfræðinga karlkyns

„Það er ótrúlega margt spennandi í hjúkrun eins og við …
„Það er ótrúlega margt spennandi í hjúkrun eins og við sáum í COVID-faraldrinum,“ segir Eygló. mbl.is/Kristinn Magnússon

Einungis 3% hjúkrunarfræðinga og sjúkraliða á Íslandi eru karlmenn og er það hlutfall með því lægsta á heimsvísu. Víða er hlutfallið 10-15% og segir Eygló Ingadóttir, formaður jafnréttisnefndar Landspítala, að staðan hafi valdið heilbrigðisstéttunum áhyggjum.

Fyrir skemmstu tók Eygló á móti styrk upp á 4,7 milljónir frá Jafnréttissjóði til verkefnisins Strákar og hjúkrun sem miðar að því að fjölga karlmönnum í stéttum hjúkrunarfræðinga, sjúkraliða og ljósmæðra eða ljósfeðra.

„Staðalímynd hjúkrunarfræðinga sem kvennastéttar er mjög sterk. Við verðum að breyta því og byrja snemma á því að sýna krökkum að þetta er ekki endilega rétt staðalímynd,“ segir Eygló.

„Karlmenn eru settir í eitthvert box og samfélagið leyfir þeim ekki að gera það sem þá langar. Það leyfir konum það frekar, konur fá klapp á bakið ef þær ganga inn í störf sem hafa verið skipuð körlum en ekki öfugt. Það er mjög sorglegt því hjúkrun er starf sem mun ekki hverfa í fjórðu iðnbyltingunni og hjúkrunarstarfsmaður getur unnið hvar sem er í heiminum. Við eigum mjög góða skóla á Íslandi bæði fyrir hjúkrunarfræðinga og sjúkraliða.“

(f.v.) Hildur Sigurðardóttir, lektor við hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands, og Eygló …
(f.v.) Hildur Sigurðardóttir, lektor við hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands, og Eygló Ingadóttir, formaður jafnréttisnefndar Landspítala, ásamt Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra við styrkveitinguna.

Eitt kyn endurspegli ekki samfélagið

Spurð hvers vegna það sé slæmt að stétt sé nærri eingöngu skipuð öðru kyninu segir Eygló:

„Það endurspeglar ekki samfélagið og þá sem fá þjónustu hjá okkur. Blandaðir vinnustaðir eru mjög oft betri vinnustaðir. Við þurfum að koma strákum út úr staðalímyndarkassanum.“

Eygló segir íslenskt samfélag vera fast í staðalímyndum.

„Strákar eru fastir í þeim forarpytti, sem er að ég held hluti af vanheilsu drengja og óhamingju, að þeir megi ekki vera það sem þeir eru, þeir megi ekki velja það starf sem þá langar til. Þeir eiga að vera kúl, flottir og kaldir karlar.“

Sýna það mest spennandi við hjúkrun

Um er að ræða samvinnuverkefni hjúkrunarfræðideildar Háskóla Íslands og Háskólans á Akureyri en sjúkraliðaskólar munu einnig koma að verkefninu.

Fyrirmynd verkefnisins er verkefnið Stelpur og tækni sem Háskólinn í Reykjavík hefur haldið í nokkur ár og hefur, að sögn Eyglóar, skilað árangri.

„Sama dag og Stelpur og tækni verður haldið næsta vor ætlum við að halda Stráka og hjúkrun þar sem við kynnum hjúkrunarstörf, störf hjúkrunarfræðinga, sjúkraliða og ljósmæðra. Við ætlum að sýna allt það skemmtilegasta og mest spennandi við hjúkrun. Við ætlum að flagga okkar flottu karlkyns hjúkrunarfræðingum og láta þá sýna strákunum hitt og þetta.“

Hjúkrunarfræðingar eru áberandi í baráttunni við kórónuveiruna.
Hjúkrunarfræðingar eru áberandi í baráttunni við kórónuveiruna. Ljósmynd/Landspítali/Þorkell

Samskipti, tækni og kennsla

En hvaða hliðar hjúkrunar eru mest spennandi?

„Það er ótrúlega margt spennandi í hjúkrun eins og við sáum í COVID-faraldrinum. Hjúkrun er svo fjölbreytt starf. Þetta er starf þar sem samskipti eru alltaf í fyrsta sæti, samskipti við sjúklinga og aðra sem þú veitir þjónustu, samskipti við samstarfsfólk. Það er alltaf mikil samvinna í hjúkrun og í heilbrigðiskerfinu í yfirleitt. Tæknilegs eðlis er mjög margt spennandi, endurlífgun og alls konar tæki og tól sem við notum á sérhæfðum deildum, skurðaðgerðir, heilsugæsla, forvarnir og kennsla.“

Eygló telur að viðburðurinn sé gott fyrsta skref og hann þurfi að halda árlega en meira þurfi ef duga skal.

„Ég tel að við þurfum að sýna yngri börnum að strákar mega vera hjúkrunarfræðingar, sjúkraliðar eða ljósfeður og stúlkur sjá að þær mega verða rafvirkjar og bifvélavirkjar, til dæmis með því að sýna þeim það í barnabókum. Við þurfum að byrja mjög snemma.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert